Stjörnufans í Njarðvík
Logi Gunnars lofar hörkuleik þar sem „gömlu refirnir“ ætla sér sigur
Njarðvíkingar efna til stórviðburðar á föstudaginn en þá verðuru haldinn sannkallaður stjörnuleikur í körfubolta í Ljónagryfjunni þar sem ágóðinn rennur til góðs málefnis. Þar mætast fyrrum leikmenn Njarðvíkinga sem eiga að baki samtals 51 Íslandsmeistaratitil og núverandi leikmenn liðsins sem leika í Dominos-deild karla. Tveir af sigursælustu þjálfurum Njarðvíkinga munu stjórna liði áskorenda í leiknum en það eru þeir Gunnar Þorvarðarson og Friðrik Ingi Rúnarsson.
Davíð Páll Viðarsson stjórnarmaður hjá Njarðvík sagði í samtali við Víkurfréttir að öllu yrði tjaldað til en með þessu móti vill félagið koma til móts við samfélagið og þakka fyrir stuðning í gegnum árin. Hann segir að stefnan sé sett á að gera þetta að árlegum viðburði en færri komust að en vildu til að taka þátt í leiknum í ár.
Í hálfleik verður þriggja stiga keppni og er ætlunin að bjóða síðasta sætið í keppninni til hæstbjóðanda en að sjálfsögðu rennur það fé til Líknarsjóðs Njarðvíkurkirkna eins og aðgangseyrir að leiknum. Davíð segist búast við því að þetta verði alvöru leikur enda er lið áskorenda feikna sterkt og margir leikmenn þar sem myndu líklega labba beint inn í núverandi Njarðvíkurlið. Þar má nefna kappa á borð við Brenton Birmingham, Jeb Ivey, Jóhann Árna Ólafsson, Guðmund Jónsson og Loga Gunnarsson.
Víkurfréttir náðu tali af Loga og hann sagðist viss um að gömlu refirnir myndu veita Njarðvíkingum verðuga samkeppni enda allt keppnismenn fram í fingurgóma sem fara í alla leiki til að sigra þá. Hann var á því reyndar að Friðrik Stefánsson ætti að vera með þeim gömlu í liði en Friðrik tók fram skóna að nýju í haust og hefur leikið með Njarðvíkingum á yfirstandandi tímabili. Logi sagði jafnframt að liðið hafi tekið æfingu nú þegar og líti frábærlega út. „Það er verið að flytja inn erlent vinnuafl fyrir leikinn svo öllu er tjaldað til,“ en þar á Logi við Jeb Ivey sem á farsælan feril að baki. Logi vildi svo sem ekki gerast of yfirlýsingaglaður enda eru ungu leikmennirnir í Njarðvíkurliðinu í góðu formi að hans sögn. „Við ætlum okkur þó sigur. Það ætti að vera ávísun á sigur að hafa Ísak Tómasson og Friðrik Ragnarsson að stjórna spilinu. Þeir ættu að finna mann á vængnum,“ sagði Logi að lokum um leið og hann hvatti fólk til þess að fjölmenna á viðburðinn.
Fortíðarþrá mun svífa yfir vötnum en leikmenn munu leika í glæsilegum búningum sem eru sérhannaðir fyrir þetta tækifæri. Ekki verður gefið neitt upp um búningana en þeir ættu að koma kunnuglega fyrir sjónir og vekja mikla kátínu.
Vel hefur gengið að safna fé að sögn Davíðs og hafa m.a. Hagkaup og Nettó þegar fært fram ansi rausnarlega styrki. Leikurinn hefst klukkan 20:00 á föstudaginn 21. desember og aðgangseyrir er 1000 krónur fyrir fullorðna og 500 fyrir börn en svo má að sjálfsögðu bæta við þær upphæðir ef fólk kýs svo.