Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stjarnan skein í Njarðvík og vann. Lenda Keflavík og Njarðvík saman í undanúrslitum?
Mánudagur 29. mars 2010 kl. 22:59

Stjarnan skein í Njarðvík og vann. Lenda Keflavík og Njarðvík saman í undanúrslitum?

„Þeir voru bara einbeittari og tilbúnari í þennan leik. Svona er þetta bara stundum,“ sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Njarðvíkinga eftir tapleik gegn Teiti Örlygssyni og Stjörnustrákunum í Iceland Express deildinni í körfu í Ljónagryjunni í kvöld. Lokatölur eftir sveiflukenndan leik voru 91-95.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stjörnupeyjar voru miklu grimmari og ákveðnari í fyrri hálfleik. Þeir léku mjög vel og skoruðu grimmt úr öllum stöðum, voru líka miklu betri í vörninni. Njarðvíkingar voru í basli með þá í vörninni og sóknin var ekki nógu beitt. Stjarnan leiddi með 9 stigum eftir fyrsta leikhluta og 15 þegar flautað var til leikhlés 37-52.

Hálfleiksræða Sigga Ingimundar hlýtur að hafa verið góð því hans menn mættu með allt öðru hugarfari í síðari hálfleik og voru búnir að jafna leikinn fljótlega. Stemmningin þá minnti á gömlu góðu tímana í Ljónagryfjunni þar sem áhagendur UMFN lifnuðu við en stuðningsmenn Stjörnunnar létu mun meira í sér heyra með trommuslætti og söng eftir að hafa mætt illa í fyrsta leiknum.
Leikurinn var nokkuð jafn til leiksloka en Stjarnan var þó með yfirhöndina og náði mest 8 stiga forskoti. Í lokin munaði 4 stigum. Sanngjarn sigur hjá þeim bláu úr Garðabænum.
„Strákarnir sýndu mikinn karakter. Ég lagði mikla áherslu á að spila góðan körfubolta og það gerðu þeir. Það verður saman uppi á teningnum á fimmtudaginn. Ef við náum einbeitingu og spilum góðan körfubolta munum við vinna,“ sagði Teitur Örlygsson, ein mesta stjarna Njarðvíkur en núverandi þjálfari Stjörnunnar.

Finnst þér ekkert skrýtið að mæta hér í Njarðvíkurnar með öðru liði gegn UMFN?
„Nei, ekki inni á vellinum en mér finnst skrýtið að fara í hinn búningsklefann,“ sagði Teitur.

Með leikmann eins og Justin Shouse þá hlýtur að vera þægilegt að vera þjálfari Stjörnunnar. Þvílíkur leikmaður. Og hann var besti maður vallarins í kvöld. Hann skoraði 27 stig og var með 12 stoðsendingar. Útlendingarnir þrír eru vissulega áberandi í liðinu og Serbinn stóri, Djorde Pantelic er sterkur varnarmaður og skoraði grimmt í leiknum 21 stig. Jovan Zdravevski er alltaf drjúgur og skoraði 13 stig. Hjá Njarðvík skoraði Magnús Gunnarsson 19 stig og var mun sterkari í síðari hálfleik en í þeim fyrri. Nick Bradford var mjög drjúgur á öllum sviðum og skoraði 15 stig. Þó hefur Nick ekki sýnt sínar allra bestu hliðar frá því hann kom til Njarðvíkur eins og við sáum hjá honum með Keflavík og Grinavík í fyrra. Jóhann Árni Ólafsson er að vakna til lífsins og var nokkuð góður með 14 stig. Friðrik skilaði 11 stigum í hús en var líka drjúgur í fráköstum og öðrum þáttum.

Það vantaði meiri neista í lið Njarðvíkur allan tímann en þeir sýndu allar sínar bestu hliðar í þriðja leikhluta en það var ekki nóg á móti góðu Stjörnuliði. Þriðji leikurinn mun skera úr um hvort liðið fer í undanúrslitin. Sigri Njarðvík og Keflavík í sínum leik lenda liðin saman í undanúrslitum.. Eftir þessar tvær viðureignir þar sem liðin unnu útileikina er ómögulegt að spá um úrslit. Sigurður Ingimundarson var þó viss í sinni sök og sagði að það væri ekkert mál að fara í Garðabæinn og klára dæmið.

Efst skorar Hjörtur Einarsson fyrir framan troðfulla Ljónagryfju. Til hliðar má sjá Friðrik Stefánsson gegn hinum stóra Pantelick. Á efstu myndinni er Magnús Gunnarsson í sókninni. Að neðan sækir Nick Bradford sækir að körfu Stjörnunnar og á neðstu myndinni er Magnús Gunnarsson í eldlínunni.

VF-myndir/hildurbjörk.

Texti: pket.

--