Stjarnan lagði Keflvíkinga
Keflavík beið lægri hlut gegn Stjörnunni þegar liðin áttust við í Iceland Express deild karla í gærkvöldi. Úrslit leiksins urðu 82-73. Hann fór fram í Ásgarði.
Leikurinn var jafn lengst framan af. Stjarnan leiddi eftir fyrsta leikhluta, 14-11 og í hálfleik hafði hún fjögurra stiga forystu, 37-33.
Leikurinn var í járnum í þriðja leikhluta. Keflvíkingar komust yfir og náðu fimm stiga forystu, 50-45. Stjörnumenn börðust hins vegar vel og náðu að komast yfir á nýjan leik.
Leikurinn var jafn í upphafi síðasta fjórðungs en Garðbæingar náðu aftur undirtökunum í leiknum, voru grimmir í vörninni, vörðu skot og stálu boltum. Þeir uppskáru því góðan sigur í lokin, 82-73 eins og áður segir.
Fannar Helgason átt góðan leik hjá Stjörnunni, skoraði 20 stig, tók 18 fráköst og átti 8 stoðsendingar. Justin Shouse skoraði 24 stig. Í liði Keflavíkur skoraði Gunnar Einarsson 18 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson 17.
--
Mynd/www.karfan.is – Úr leik Keflavíkur og Stjörnunnar í gær.