Stjarnan átti í litlum vandræðum með Keflavíkinga
Keflavík lék gegn Stjörnunni í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í gær og þurftu Keflvíkingar að játa sig sigraða í þeirri viðureign. Leikurinn fór fram á heimavelli Stjörnunnar og höfðu heimakonur tök á leiknum frá upphafi til enda.
Keflavík lenti undir á 5. mínútu þegar Stjarnan fékk hornspyrnu. Eftir smá darraðadans fyrir framan mark Keflvíkinga, þar sem þær virtust vera að bjarga á línu, veifaði aðstoðardómarinn að boltinn hefði farið yfir línuna og mark dæmt. Vafasamt en Keflavík 1:0 undir engu að síður.
Annað mark Stjörnunnar var klaufalegt en þá tóku heimakonur aukaspyrnu af löngu færi, boltinn er sendur inn í teiginn en engin nær að koma við hann og boltinn fór framhjá öllum og hafnaði í markinu (24'). Heppnisstimpill yfir markinu en óþægilegur bolti fyrir Vera Varis, markvörð Keflvíkinga, sem reiknaði alltaf með að boltinn myndi breyta um stefnu af einhverjum leikmanni.
þriðja og síðasta mark Stjörnunnar kom á 62. mínútu þegar Aníta Ýr Þorvaldsdóttir átti gott skot utan teigs sem Vera Varis átti ekki möguleika á að verja.
Þetta var ekki dagur Keflvíkinga en þær náðu sér ekki á strik í leiknum og voru allan tímann eftirbátar Stjörnukvenna. Fyrir leik voru liðin jöfn að stigum í fimmta og sjötta sæti en Keflavík missti Tindastól upp fyrir sig og situr nú í því sjöunda eftir sex leiki.
Næsti leikur Keflavíkur verður gegn ÍBV þann 6. júní á heimavelli Keflvíkinga, HS Orkuvellinum.