Stig í hús gegn FH í Grindavík
Grindavík og FH skildu jöfn í 7. umferð Pepsi-deildarinnar á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla. Leikurinn fór fram í Grindavík í stilltu og góðu knattspyrnuveðri.
Leikar voru jafnir allt fram á 74. mínútu þegar Andri Rúnar Bjarnason, Grindavík, skorar framhjá Gunnari Nielsen í marki FH. Heimamenn komnir með forystu sem þeir ætluðu sér svo sannarlega að verja. Það tókst ekki því Kristján Flóki Finnbogason jafnaði með þrumuskoti utan teigs aðeins tveimur mínútum síðar.
Pressan var á Grindavík það sem eftir lifði leiks en heimamenn stóðust pressuna og voru sáttir við eitt stig í hús, sem voru sanngjörn úrslit m.v. gang leiksins.