Sterkur sigur Víðismanna á Berserkjum
Reynismenn gerðu jafntefli við botnliðið eftir að hafa lent 0-2 undir
Víðir í Garði vann í gærkvöldi gríðarlega mikilvægan sigur á liði Berserkja í 3. deild karla í knattspyrnu og Reynismenn misstigu sig gegn botnliði Álftaness og þurftu að sætta sig við jafntefli.
Víðismenn hafa verið á miklu skriði undanfaranar vikur og höfðu ekki tapað 6 leikjum í röð fyrir leik gærkvöldsins. Víðismenn lentu þó undir á 22. mínútu leiksins þegar þeir urðu fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.
Það tók Víðir þó ekki nema þrjár mínútur að jafna metin og var þar að verki Milan Tasic en kappinn gerði svo enn betur þegar hann kom heimamönnum í 2-1 á 37. mínútu og stóðu leikar þannig í hálfleik. Það var svo Alexandar Stojkovics sem að gerði úti um leikinn á 90. mínútu með þriðja marki Víðis.
Víðismenn sýna málefninu „Út meðða“ stuðning í verki og klæddust bolum í tilefni þess.
Úrslitin hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir Víðismenn sem eru í harðri botnbaráttu, sem og Berserkir sem að misstu Víðir 4 stigum frammúr sér með tapinu. Víðismenn sitja í 7. sæti deildarinnar með 17 stig.
Reynismenn mættu Álftnesingum á Bessastaðavelli og það voru heimamenn sem að komust í 2-0 áður en fyrri hálfleikur var allur. Reynismenn klifruðu þó uppúr holunni í síðari hálfleik og það voru þeir Pétur Þór Jaidee og Hafsteinn Helgason sem að skoruðu sitthvort markið til að jafna metin með þriggja mínútna millibili þegar um 20 mínútur lifðu leiks.
Ekki voru skoruð fleiri mörk og þurftu Reynismenn því að sjá á eftir tveimur stigum sem að þeir hefðu glaðir þegið í baráttunni um sæti í 2. deild.
Úrslitin þýða að Reynismenn eru sem fyrr í 2. sæti deildarinnar og hafa fjögurra stiga forskot á Völsung í þriðja sætinu en Húsvíkingar eiga þó leik til góða.