Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sterkur sigur á Íslandsmeisturunum í Blue-höllinni
Remy Martin var stigahæstur Keflvíkinga með 29 stig. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 11. janúar 2024 kl. 09:11

Sterkur sigur á Íslandsmeisturunum í Blue-höllinni

Keflavík vann góðan sigur á sprækum Tindastólsmönnum í Subway-deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Keflavík var þremur stigum undir í upphafi fjórða leikhluta en með góðum leik í lokaleikhlutanum uppskáru þeir þrettán stiga sigur.

Keflavík - Tindastóll 99:86

Það var jafnræði á með liðunum frá fyrstu mínútu og munaði aðeins einu stigi eftir fyrsta leikhluta (32:33). Norðanmenn hófu annan leikhluta með látum og skoruðu tíu stig án þess að Keflvíkingar kæmu með mótsvar, staðan orðin 32:43 fyrir Stólunum. Eftir þessa rispu Tindastóls jafnaðist leikurinn að nýju og heimamenn minnkuðu muninn í fimm stig fyrir hálfleik (53:58).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikur liðann var í járnum út þriðja leikhluta en Keflavík tókst saxa aðeins á muninn og munaði einungis þremur stigum fyrir síðasta leikhluta (71:74).

Keflvíkingar byrjuðu fjórða leikhluta vel og þeir Jaka Brodnik og Remy Martin skoruðu hvor þrjú stig. Þá komu þeir Marek Dolizaj og Urban Oman með sína hvora troðsluna í andlit gestanna og það kveikti heldur betur í heimamönnum, innan og utan vallar. Keflavík búið að snúa leiknum sér í vil og komið með fimm stiga forystu (81:76).

Þetta kveikti í leikmönnum og áhorfendum.

Eftir að hafa tekið forystuna gaf Keflavík norðanmönnum ekki færi á að komast aftur inn í leikinn og landaði góðum sigri að lokum.

Remy Martin fór fyrir heimamönnum í stigaskorun með 29 stigum en hann hitti úr níu af 22 skotum sínum. Urban Oman átti góðan leik og gerði nítján stig, Jaka Brodnik var með tólf og Sigurður Pétursson var öflugur beggja megin vallarins, skoraði tíu stig og var gríðarlega sterkur í vörninni.

Hingað og ekki lengra – Sigurður með glæsilega vörn gegn Þóri Þorbjarnarsyni í fjórða leikhluta.

Sem stendur er Keflavík við hlið Vals á toppnum en Valsmenn mæta botnliði Hamars í kvöld. Njarðvíkingar eru einum sigri á eftir Keflavík og Val en þeir taka á móti Haukum í Ljónagryfjunni í kvöld og þá taka Grindvíkingar á móti Álftanesi í Smáranum. Grindvíkingar eru við hlið Hattar í áttunda til níunda sæti, tveimur sigrum á eftir Álftanesi.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, mætti í Blue-höllina með myndavélina og eru fleiri myndir í myndasafni neðst á síðunni.

Keflavík - Tindastóll (99:86) | Subway-deild karla 10. janúar 2023