Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sterk liðsheild en engir stjörnuleikmenn
Laugardagur 3. maí 2014 kl. 13:04

Sterk liðsheild en engir stjörnuleikmenn

- Keflvíkingar hefja leik í Pepsi-deildinni á morgun

Keflvíkingar bíða þess spenntir að hefja knattspyrnusumarið en leikar í Pepsi-deild karla hefjast í dag sunnudaginn 4. maí þar sem liðið fær Þórsara í heimsókn á Nettóvöllinn. Strákarnir í Keflavík luku tímabilinu á síðasta ári á háu nótunum en í seinni umferðinni voru þeir allra liða heitastir. Þjálfarinn Kristján Guðmundsson vonast til þess að byggja áfram á því góða gengi.

„Það er tilhlökkun í okkur og við getum ekki beðið eftir því að byrja mótið,“ sagði þjálfarinn galvaskur. Keflvíkingar hafa ekki gert markverðar breytingar á leikmannahóp sínum frá fyrra ári. Uppistaðan eru áfram heimaaldir piltar sem koma í gegnum glæsilegt yngriflokkastarf. Kristján fer ekki í grafgötur með það að fjárhagslega geta Keflvíkingar ekki keppt við liðin af höfuðborgarsvæðinu sem talin eru líkleg til þess að berjast um titilinn. Fjölmiðlar hafa undanfarið birt spár sínar þar sem Keflvíkingar þykja líklegir til þess að vera rétt fyrir ofan fallbaráttuna. Kunnuglegar slóðir fyrir Keflvíkinga sem setja þó markið hærra. „Við ætlum að stefna á að spyrna okkur frá pakkanum í neðri hlutanum og vera með í baráttunni um Evrópusæti,“ segir Kristján sem er fullur bjartsýni fyrir sumrinu en fyrstu andstæðingarnir koma að norðan á sunnudag. „Við erum tilbúnir að sýna að við ætlum okkur að gera heimavöllinn sterkan. Þannig var það síðari hluta tímabils í fyrra og við þurfum að byrja á sigri til þess að sýna fólkinu okkar að gaman verði að mæta á Nettóvöll í sumar.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nettóvöllur í góðu standi

Nettóvöllurinn kemur vel undan vetri og er hann einn af fáum völlum sem er vel í stakk búinn fyrir fyrstu umferð. „Það er alltaf vindur og sól í Keflavík sem hjálpar til hvað völlinn varðar. Nettóvöllurinn er grænn og fallegur og okkur hlakkar til að spila þar á sunnudaginn,“ segir Kristján sem hefur úr frísku liði að velja fyrir leikinn. Allir leikmenn eru við góða heilsu en þjálfarinn segir að mikið áhersla hafi verið lögð á andlega þáttinn hjá Keflvíkingum í undirbúningi fyrir tímabilið. Leikmenn séu teknir í sérstök persónuleikapróf tvisvar á ári og svo er komið fram við þá í samræmi við niðurstöður úr þeim prófum og þeir þjálfaðir eftir því. Keflvíkingar eru því tilbúnir á líkama og sál að því er virðist.

Einn þessara leikmanna er Magnús Þórir Matthíasson, sem hefur eignað sér stöð vinstri bakvarðar hjá liðinu en hann hóf ferilinn sem sóknarmaður. Þrátt fyrir að vera einungis 24 ára er Magnús með töluverða reynslu að baki. Hann er einn af þeim leikmönnum sem fékk tækifæri þrátt fyrir ungan aldur en Magnús telur að Keflvíkingar geti gert góða hluti í sumar þar sem reynsla og æska mynda spennandi lið. „Það hefur skilað góðum árangri að leita í yngri flokkana. Síðustu dæmi um það eru Arnór Ingvi sem er núna að spila sem atvinnumaður og Samúel Kári sem er að gera það gott hjá Reading.“

Á dögunum fóru Keflvíkingar til Spánar en Magnús segir að það hafi enn fremur þjappað hópnum saman eftir gott undirbúningstímabil. Stemning ríki í liðinu og tilhlökkun fyrir fyrsta leik. „Við erum ekki beint með einhverja stjörnuleikmenn. Heldur erum við góð liðsheild sem stefnum í sömu átt. Við erum flestir héðan úr Reykjanesbæ og við þekkjum hefðina. Við hörfum fulla trú á okkur.“ Magnús telur að 3-4 lið séu líkleg til þess að berjast um titilinn en þar fyrir neðan séu mörg lið sem eru svipuð að styrkleika. „Það er hægt að sækja stig gegn hvaða liði sem er í deildinni á góðum degi. Mér líst hrikalega vel á þetta og gaman að byrja á heimavelli. Við ætlum okkur þrjú stig í fyrsta leik. Við ætlum að halda sömu stemningu og síðasta haust og reyna að gera Nettóvöllinn að gryfju.“