„Stelpurnar sýna bara hver annarri“
Þjálfar júdó á síðustu vikum meðgöngu.
Katrín Ösp Magnúsdóttir er 27 ára Vogamær og komin tæpa 9 mánuði á leið með sitt fjórða barn. Hún þjálfar 7 - 10 ára stúlkur í júdó og ætlar að halda því áfram eins lengi og hún getur. Víkurfréttir kíktu á æfingu hjá Katrínu í íþróttamiðstöðinni í Vogum.
Armbeygjurnar pínu erfiðar
Katrín segir ekki erfitt að þjálfa þótt hún sé komin þetta langt á leið. „Maður finnur bara aðrar leiðir. Ég fæ stelpurnar meira til að sýna hver annarri. Sýni þeim hálfvegis og svo klára þær bara. Reyndar var ég að kenna þeim armbeygjur fyrir tveimur vikum síðan og fattaði ekki að ég væri með svona stóra bumbu og komst bara nokkra sentimetra. Þá benti ég bara á eina stúlkuna og sagði: Gerið eins og hún.“ Katrín hlær og bætir við að stelpurnar séu mjög meðvitaðar um ástand hennar og geri það sem þarf. „Þegar ég var ólétt að öðrum drengnum mínum þjálfaði ég stráka og stelpur úr Grindavík. Sjálf á ég þrjá stráka og einn stjúpson.“ Nóg er að gera hjá Katrínu samhliða júdóþjálfun og heimilishaldi, en hún er einnig í grunnskólakennaranámi við Háskóla Íslands.
Stundum örlítið þreytt á kvöldin
Spurð um styrk, orku og heilsu á meðgöngunni segist Katrín stundum verða örlítið þreytt á kvöldin en þá fari hún bara þeim mun fyrr að sofa. Ef konur eru í hennar sporum og vilja nýta tímann og orkuna sem best þegar komið er svona langt á leið, segir Katrín: „Bara með því að hreyfa sig, huga að mataræðinu og hugsa jákvætt. Taka viku fyrir viku.“ Eins og áður hefur komið fram á Katrín þrjú börn fyrir og einn stjúpson. Hún segir það vera púsluspil: „Maður er að allan daginn. Það þarf bara skipulag.“
Með júdóáhugann í blóðinu
Katrín kemur úr mikilli júdófjölskyldu. Faðir hennar er júdókappinn Magnús Hersir Hauksson. „Pabbi er búinn að vera í júdó síðan hann var 5 eða 6 ára gamall og er með júdóklúbb hérna í Vogunum. Ég byrjaði að æfa hjá honum. Ég ætlaði sko aldrei í júdó því ég var í fimleikum. Hann fékk mig yfir í júdó 15 ára gamla og ég hef ekki hætt síðan,“ segir Katrín hlæjandi. Hún kynntist einnig manni sínum, Grindvíkingnum Einar Jóni Sveinssyni, á júdóæfingu. „Þar var ég vör við hann og við höfum verið saman í júdóinu síðan, ég, pabbi og hann. Pabbi varð að sætta sig við það þegar á leið,“ segir Katrín hlæjandi.
Einar Jón þjálfar aðallega í íhlaupum fyrir Katrínu og föður hennar. „Hann er teknískari en ég meira í grunninum. Svo þegar ég er komin lengra fæ ég hann oft með mér á æfingar til þess að kenna svona auka.“ Spurð að lokum um hvort sé nú betra í júdó, hún eða maðurinn hennar, stendur ekki á svari: „Ég er nú bara nokkuð góð í standandi glímu. En pabbi minn segir að ég sé frekar léleg í gólfglímunni. Ég virðist alltaf tapa því ég er alltaf ólétt. Þannig að við erum svona nokkuð jöfn,“ segir Katrín skellihlæjandi að lokum.