STEINÞÓR Í TOPPFORMI
Steinþór Geirdal Jóhannsson er 18 ára Keflvíkingur sem hefur sýnt afburðaárangur á keilumótum undanfarna mánuði. Í apríl sl. varð hann Norðurlandameistari í unglingaflokki, hann var valinn keilari ársins 1999 og náði bikarmeistaratitlinum með liði sínu, Liða. Steinþór á þrjú íslandsmet í unglingaflokki í einum leik og litlu munaði að hann jafnaði heimsmetið sem er 300 stig en hann náði 298 stigum. Hann setti íslandsmet í fimm leikjum með 1146 stigum og í sex leikjum með 1347 stigum. Steinþór hefur ekki látið staðar numið við metasöfnun því hann endaði með hæsta meðaltal á sumarmeistaramóti í tvímenningi, eða 201,7 stig. ,,Í nóvember fer ég með karlalandsliðinu í keilu á heimsmeistaramót í Sameinuðu arabísku furstadæmunu. Það verður gaman því þetta er staður sem maður fer að öllu jöfnu ekki til.” Ertu á leið í atvinnumennskuna? ,,Nei, ætli maður haldi þessu áhugamáli ekki innan ákveðinna marka. Ég er bara að hafa gaman af þessu”, sagði þessi ungi afreksmaður að lokum.