Steinar: Leikur upp á líf og dauða
Víðismenn gerðu góða ferð Norður í Skagafjörð á laugardag er þeir lögðu Tindastól 2-4 á Sauðárkróki í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í 3. deild karla í knattspyrnu. Að þessu sinni komast fimm lið upp úr 3. deildinni og upp í 2. deild og takist Víðismönnum að komast upp úr fyrstu umferðinni eru þeir sjálfkrafa komnir með sæti í 2. deild að ári.
Mörk Víðismanna fyrir Norðan gerðu þeir Haraldur Axel Einarsson, Atli Rúnar Hólmbergsson, Slavisa Mitic og Alexandar Trankovic. Víðir þarf því aðeins á jafntefli að halda þegar liðin mætast í síðari leiknum í 8-liða úrslitum en Steinar Ingimundarson, þjálfari Víðis, segir sína menn ætla sér meira í leiknum en jafntefli.
,,Sigurinn fyrir Norðan um helgina telur ekkert á morgun. Við eigum von á baráttu upp á líf og dauða og það eru allir okkar menn klárir í slaginn og engin meiðsli að hrjá hópinn,” sagði Steinar í samtali við Víkurfréttir.
,,Við förum með sama viðhorf í þennan leik eins og alla aðra, við ætlum okkur sigur, það hefur ekkert breyst hjá okkur,” sagði Steinar sem samdi til eins árs við Víði. ,,Ég er ekkert farinn að huga að framhaldinu. Ég er að einbeita mér að því verkefni sem er fyrir höndum og við metum bara stöðuna að loknu tímabili,” sagði Steinar sem segir það ekki koma til greina að fara með jafntefli í huga í leikinn á morgun.
,,Ef við förum í leikinn á morgun með það að markmiði að ná jafntefli þá erum við í slæmum málum, þetta er leikur upp á líf og dauða fyrir bæði lið og við munum gefa allt í þennan leik sem við eigum,” sagði Steinar.
Leikurinn hefst kl. 17:30 á morgun á Garðsvelli og er frítt á völlinn og því tilvalið að fjölmenna og hvetja Víðismenn til dáða í baráttunni um sæti í 2. deild.
Eftirtalin fyrirtæki bjóða þér á völlinn
Von ehf – Ferskfiskur – Bílar og hjól – Háteigur ehf – VSFK
Samkaup – H. Pétursson – Hárgreiðslustofan Kamilla
K. Steinarsson Hekluumboð – SI Verslun – Trésmíði Guðjóns Guðmundssonar