Stefnir ótrauður aftur út í háskólaboltann
Bakvörðurinn Jón Axel er kominn aftur á heimaslóðir
Það var óneitanlega mikil blóðtaka fyrir karlalið Grindvíkinga í Domino’s deildinni þegar bakvörðurinn efnilegi Jón Axel Guðmundsson ákvað að leggja í víking og reyna fyrir sér í skólaboltanum í Bandaríkjunum. Dvölin varð reyndar styttri en upphaflega var ætlað og Jón Axel er nú kominn aftur í gula búninginn ásamt Ingva yngri bróður sínum. Jón minnti rækilega á sig þegar hann var staddur hérlendis í fríi í byrjun desember, þegar hann lék frábærlega, en óvænt, með Grindvíkingum gegn Tindastólsmönnum. Nú er hann klár í slaginn með bikarmeisturunum en stefnir ótrauður á háskólanám í Bandaríkjun innan skamms, þar sem stórir skólar hafa sýnt honum áhuga.
Skóli Steph Curry hefur sýnt áhuga
Þeir bræður léku með liði Church Farm menntaskólans í Pennsylvaníu-ríki í Bandaríkjunum. Þar var Jón Axel að gera góða hluti. Leiddi liðið í stigaskorun með yfir 20 stig í leik og var leiðtogi í hópnum sem var að gera góða hluti. Jón lék það vel að hann vakti nokkra athygli háskólaliða í efstu deild þar ytra. Þeirra á meðal eru lið sem alið hafa af sér NBA stjörnur, m.a. Davidson skólinn þar sem Steph Curry leikmaður Golden State ól manninn. „Það hafa nokkrir skólar sýnt áhuga. Það var einmitt ástæðan fyrir því að við fórum út, til þess að vera sýnilegri fyrir háskólaliðin,“ segir Jón sem stefnir á að fara aftur til Bandaríkjanna eftir rúmt ár og upplifa háskóladrauminn. Hann fer hvergi leynt með það að stefnan sé tekin á háskólaboltann þrátt fyrir þetta bakslag. „Núna er ég með einhver sex tilboð á borðinu frá háskólum. Þetta eru flestir skólar sem keppa á móti Elvari Friðriks og Martin Hermanns, þannig að það er mjög spennandi.“ Meðal skóla sem hafa sýnt áhuga eru St. Joseph´s, Penn state og Davidson.
Virkilega erfið ákvörðun
Skiljanlega var erfitt fyrir þá bræður að fara frá skólanum eftir aðeins hálfs árs dvöl enda orðnir lykilmenn í liðinu. „Þjálfarinn var búinn að gefa okkur stórt hlutverk og liðinu gekk vel og því var þetta ferlega erfitt. Mér leið nokkurn veginn eins og maður væri að gefast upp á einhverju. Þetta var ekki alveg að ganga og við hugsuðum okkur að við fengjum meira út úr því að spila heima gegn fullorðnum mönnum. Einhverjir sögðu okkur að háskólar myndu ekki sýna áhuga ef við færum heim. Þeir skólar sem ég hef verið í sambandi við sögðu þó að ég ætti bara að gera það sem væri best fyrir mig, við ákváðum því að gera það,“ segir Jón. Hann segir einnig að skólinn hafi ekki alveg verið eins og við var búist.
„Þetta var öðruvísi en var búið að segja við okkur. Allur okkar tími var í raun skipulagður fyrir okkur. Við höfðum engan tíma út af fyrir okkur nema á laugardögum,“ segir Jón. Þeir bræður bjuggu á heimavist við skólann sem var nokkuð fyrir utan næstu byggð. Það var því lítið um að vera þegar ekki var verið að læra eða spila körfubolta. Jón segir að ein að helstu ástæðunum fyrir því að hann fór í þennan skóla, var að hann vildi bæta líkamlegan styrk sinn. „Þeir höfðu lofað því að mikið yrði um lyftingar en það stóðst ekki,“ segir bakvörðurinn.
Jón ætlar sér ekki að dvelja of lengi við þessa ákvörðun og einbeitir sér nú að Domino’s deildinni með Grindvíkingum. Liðinu hefur ekki gengið sem best og situr í níunda sæti sem stendur. Leikstjórnandinn ungi býst við liðinu sterku á nýju ári og finnst gott að vera kominn aftur í Röstina „Það er alltaf ljúft að vera í Grindavík og gott að vera kominn heim. Við eigum góðan séns að gera einhverja hluti í vetur. Ég held að við verðum stekari eftir áramót. Við bræðurnir komum til með að stækka hópinn, en við erum með 12 leikmenn sem geta gert eitthvað fyrir liðið,“ segir Jón Axel að lokum.