Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Stefnan er að tefla fram liði í 1. deild næsta tímabil
Laugardagur 11. apríl 2015 kl. 07:00

Stefnan er að tefla fram liði í 1. deild næsta tímabil

-Ingvi Steinn Jóhannsson, þjálfari Reynis, í snörpu viðtali

Reynir Sandgerði leikur í dag úrslitaleik við Ármann um Íslandsmeistaratitilinn í 2. deild karla. Liðin hafa bæði unnið sér inn þátttökurétt í 1. deild á næsta tímabili eftir að hafa bæði unnið 2 leiki í úrslitakeppninni til að komast á þann stað.

Íþróttadeild Víkurfrétta setti sig í samband við Ingva Stein Jóhannsson, þjálfara Reynismanna, vegna leiksins í dag og framtíðarhorfa körfuboltans í Sandgerði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrst af öllu, til hamingju með að hafa tryggt sætið í 1. deild. Þetta hlýtur að vera mikill léttir eftir 2 erfiða leiki gegn ÍG og svo Leikni. Hvernig er tilfinningin svona eftir á og hvernig var stemmningin í klefanum eftir Leiknisleikinn? 

Takk fyrir það. Stemmningin innan hópsins eftir Leiknisleikinn var virkilega góð enda höfum við háð tvær erfiðar rimmur í úrslitakeppninni. Þetta er auðvitað erfið úrslitakeppni þar sem það er enginn annar séns ef þú klikkar í einum leik. Þó við áttum okkur á að sæti í 1.deild er í höfn þá áttum við okkur á því hitt markmið tímabilsins er handan við hornið.

Voruð þið búnir að setja ykkur þetta markmið fyrir tímabilið?

Okkar markmið voru skýr fyrir tímabilið, koma okkur upp um deild, og verða meistarar.

Er stefnan sett á að tefla fram liði í 1. deild næsta tímabil? 

Já, ég held að það sé ekki spurning.

Nú hefur Sandgerðisliðið rokkað á milli 1. deildar og 2. deildar síðustu 8-10 ár eða svo. Hvað þarf Reynir Sandgerði að gera til að verða stabílt lið í 1. deildinni? 

Það er svo sem erfitt að benda á einhverja töfralausn hvað þarf að gera. En ef ég tala bara út frá þjálfunar og leikmanna sjónarhorni þá snýst þetta fyrst og fremst um vinnusemi. Liðið hefur nánast undantekningarlaust verið byggt á íslendingum sem þýðir að oft erum við að kljást við atvinnumenn sem skapa vandræði en á móti kemur tækifæri fyrir leikmenn að láta ljós sitt skína. Til þess að það gangi upp þarf að leggja ákveðna vinnu á sig.

Verður þú áfram með liðið á næstu leiktíð? 

Hugurinn er eins og staðan er núna við verkefni helgarinnar. En síðan mun ég ræða við forsvarsmann klúbbsins.

Úrslitaleikur framundan gegn Ármenningum, hvernig sérðu þann leik fyrir þér? Hvað þurfið þið að gera til að sigra þann slag?  

Þetta verður auðvitað barningur eins og oft vill vera í úrslitaleikjum. Aðalatriðið hjá okkur er að berjast í 40 mínútur, við höfum unnið vel í því í vetur að undirbúa okkur fyrir slæmu kaflana sem myndast í leikjum. Körfubolti á það til að vera sveiflukenndur leikur og mikilvægt er að halda haus i niðursveiflunum. Þetta höfum við gert vel eftir því sem leið á tímabilið og þetta er eitthvað sem við vitum af fyrir leiknum á laugardaginn. Liðsheildin er það sem hefur skilað okkur í úrslitaleikinn og það er eitthvað sem við höldum áfram að leggja áherslu á. 

Leikur Reynis og Ármanns fer fram í íþróttahúsi Kennaraháskólans kl. 16 í dag.