Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stefna allir á Los Angeles árið 2015
Föstudagur 29. júlí 2011 kl. 10:09

Stefna allir á Los Angeles árið 2015

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Verðlaunahafarnir okkar frá Alþjóðaleikum Special Olympics komu heim fyrir skömmu eftir að hafa náð glæsilegum árangri í Aþenu á dögunum. Blaðamaður hitti þá Sigurð Guðmundsson, Guðmund Markússon, Jakob Gunnar Lárusson og Jósef Daníelsson á Kaffitári á dögunum og spurði þá um förina til Aþenu. Þeir Sigurður og Guðmundur voru í knattspyrnuliðinu sem hlaut silfurverðlaun á leikunum eftir 2-1 tap gegn Svartfjallalandi í spennandi leik. Þeir sögðust hafa verið óheppnir að tapa leiknum og litlu hefði munað á liðunum. Jakob Gunnar náði að landa bronsi í langstökki og varð fimmti í 100m hlaupi, sannarlega frábær árangur hjá kappanum.

Þeir Sigurður og Guðmundur spiluðu með knattspyrnuliði Íslands á Alþjóðaleikum Special Olympics. Jakob Gunnar og bróðir hans Jósef eru í frjálsum íþróttum en Jósef fór á Special Olympics í Kína árið 2007 og er sá eini af hópnum sem farið hefur áður.

Hvernig fannst ykkur í Grikklandi? „Það var bara mjög skemmtilegt og náttúrulega mjög flott. Fullt af flottum munum út um allt,“ segja strákarnir sem þó sögðust ekki hafa haft mikinn tíma til þess að skoða söfn og þvíumlíkt. Þó sáu þeir rústirnar á Akropólisarhæð og hrifust mjög af þeim. Hitinn var gríðarlegur þarna úti og sérstaklega rétt eftir hádegi þegar leikirnir kláruðust oftast. „Samt var eiginlega alltaf heitt, sama hvað klukkan var,“ segir Jakob.

Hvað stóð upp úr í ferðinni til Grikklands? „Það var eiginlega grín sem við gerðum í hvor öðrum þegar við vorum á hótelinu,“ segir Guðmundur og rifjar upp þegar að hann var tekinn á beinið af félögum sínum. „Ég var að fara í sturtu og þvæ á mér hárið með sjampói eins og gengur. En áður hafði Beggi liðsfélagi minn sett heila tannkremstúbu í sjampóið mitt. Eftir að hafa þvegið mér var hárið á mér klístrað og ég skildi ekkert í því, hárið á mér var líka hálf aflitað eftir þennan þvott.“ Strákarnir skellihlæja af þessari sögu og það er augljóst að stemningin var góð í hópnum.

Strákarnir segjast hafa kynnst mörgu fólki frá öðrum löndum og hafi jafnvel samband við þá enn þann dag í dag. Margir töluðu þó ekki ensku sem gerði samskiptin erfiðari fyrir vikið.

Hvað æfið þið oft í viku? Þeir æfa allir fótbolta með Öspinni og svo NES þegar þær æfingar hefjast aftur og eru að jafnaði þrisvar í viku. Strákarnir eru sammála um að það sé frekar léleg aðstaða til þess að æfa frjálsar íþróttir hér á Suðurnesjum en þeir æfa oftast fótbolta í Heiðarskóla.

Jakob Gunnar keppti í langstökki og 100 metra hlaupi úti í Aþenu en hann segir langstökkið vera sína sterkustu grein en þó segist hann ekki muna hversu langt hann hafi stokkið, það sé alla vega hellingur.

Næstu leikar eru árið 2015 í Los Angeles og það hlakkar í strákunum þegar þeir tala um þá leika, þangað vilja þeir allir fara. „Stefnan er bara að æfa af fullum krafti og stefna á þá leika, við ætlum allir að fara þangað. Svo er fótboltamót í London á næsta ári og þangað langar strákana að fara enda en þó segja þeir mikla samkeppni vera um stöðurnar í fótboltaliðinu.

Fótboltaliðið með þá Sigurð og Guðmund innanborðs sigraði 6 leiki í Aþenu og tapaði tveimur, báðum gegn Svartfjallalandi sem sigraði mótið. „Þeir voru mjög góðir og spiluðu aðeins betur en við. Við sigruðum samt Þýskaland, Austurríki, Holland, Slóveníu og stóðum okkur vel,“ segir Guðmundur sem leikur í vörn íslenska liðsins. Sigurður spilar sem bakvörður eða hægri kantur.

Strákarnir æfa allir fleiri en eina íþróttagrein og eru að allan ársins hring. Til stendur að hefja æfingar í Reykjaneshöllinni þrisvar í viku en þar hafa þeir ekki æft áður og svo eru tveir úr hópnum að æfa sund fjórum sinnum í viku. „Það væri stór plús fyrir okkur að æfa í höllinni og geðveikt fyrir okkur. Annars erum við bara í Heiðarskóla sem er of lítill fyrir okkur því við erum 22-24 þar inni, það er allt of lítið.

Eigið þið ykkur fyrirmyndir í íþróttunum? „Það er auðvitað Vidic,“ segir Guðmundur. „Og svo auðvitað Maradona.“ Sigurður segist hafa átt uppáhalds golfara sem hann hafi haldið upp á þegar hann var yngri. Sá heitir Tiger Woods en Sigurður hefur heyrt að hann sé ekkert svo góður lengur.

Efirlætis íþróttamenn Jakobs Gunnars eru þeir Kobe Bryant hjá L.A Lakers og Luis Suarez hjá Liverpool, að ógleymdum þeim Andy Carroll og Steven Gerrard. Jósef tekur undir þetta með Jakobi bróðir sínum og bætir Xabi Alonso á listann. „Því hann var vanur að skora frá miðju,“ segir Jósef.

Um kvöldið eftir viðtal okkar tóku strákarnir á móti viðurkenningu á Skötumessunni í Garðinum og fannst Jakobi virkilega skrýtið að þeir hinir borði ekki skötu, hann skildi ekkert í því hreinlega. Að lokum sögðust strákarnir ætla að leggja sig alla fram til þess að komst á næstu leika því þetta væri frábær upplifun sem þeir vildu ekki missa af.

Mynd frá vinstri: Árni Sigfússon bæjarstjóri, Jakob Gunnar Lárusson, Sigurður Guðmundsson, Guðmundur Markússon og Petrína Sigurðardóttir