Stefanía með níu Íslandsmet
Síðasta sundmót ársins hjá ÍRB var haldið um síðastliðna helgi og er óhætt að segja að það hafi gengið vel. Krakkarnir héldu áfram að slá met eins og þau eru búin að vera svo iðin við síðustu mánuði og mörg Íslandsmet féllu sem tilheyrðu áður öðrum félögum.
Þau Íslandsmet sem féllu um helgina eru þessi:
Sunneva Dögg Friðriksdóttir, Íris Ósk Hilmarsdóttir, Aleksandra Wasilewska og Birta María Falsdóttir slógu Íslandsmetið í stúlknaflokki í 4x200 skriðsundi í 25 m laug. Stelpurnar syntu á 8:37.88 en gamla metið var 8:40.70 og það átti sveit Ægis síðan 2011.
Aníka Mjöll Júlíusdóttir, Klaudia Malesa, Jóhanna Matthea Jóhannesdóttir og Stefanía Sigurþórsdóttir slógu Íslandsmetið í meyjaflokki í 4x200 skriðsundi í 50 m laug á tímanum 9:45.15 en gamla metið var 10:19. 25 og það átti sveit ÍRB síðan 2012. Í leiðinni sló Stefanía í fyrsta boðsundsprettinum Íslandsmetið í meyjaflokki í 200 m skriðsundi á tímanum 2:19.48 og bætti með því met Ragnheiðar Karlsdóttur úr Ægi, (2:20.62) sem hún átti síðan 2011.
Stefanía Sigurþórsdóttir hélt áfram að bæta við Íslandsmetasafnið sitt en hún setti þrjú met fyrir hálfum mánuði á Bikarmóti ÍSÍ (25 m laug) í 400 skrið, 800 skrið og 400 fjór en það voru allt met sem Eygló Ósk Gústafsdóttir (Ægi) átti.
Samtals voru þetta 9 Íslandsmet sem Stefanía sló síðustu þrjár vikur og þá eru ekki talin með Íslandmet með boðsundsveitinni. Hún var aðeins sekúndubrotum frá metunum í 400 skrið, 800 skrið og 200 bringu í 50 m laug en þau met eiga Eygló Ósk Gústafsdóttir og Ólöf Edda Eðvarðsdóttir (ÍRB).