Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stefán framlengir hjá Keflavík
Þriðjudagur 21. september 2004 kl. 16:41

Stefán framlengir hjá Keflavík

Stefán Gíslason hefur skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Keflavíkur.

Stefán, sem hefur vakið mikla athygli með frammistöðu sinni í sumar, var með lausan samning eftir tímabilið og höfðu mörg félög borið í hann víurnar. Nú hefur allri óvissu um málið verið eytt og eru þessar fréttir án efa góðar fyrir stuðningsmenn Keflavíkur.

Í samtali við Víkurfréttir lýsti Rúnar Arnarson, formaður deildarinnar, yfir ánægju með að Stefán skuli hafa helgað liðinu krafta sína þrátt fyrir að mörg önnur lið hafi vilja fá hann í sínar raðir. Hann bætti því við að Stefán væri einn af kjölfestum liðsins og mikilvægur hornsteinn í uppbyggingu liðsins á næstu árum.

„Það kom ekkert annað til greina en Keflavík af liðunum hér á landi,“ sagði Stefán og sagðist mjög sáttur við samninginn. „Ég er ánægður með allt hér bæði knattspyrnulega og það sem varðar stjórn og umgjörð. Klúbburinn hefur metnað til að gera góða hluti.“

Rúnar tjáði sig ekki um samningamál annarra leikmanna, en sagði að á næstunni yrði sest niður og farið yfir málin. Sama var að segja um þjálfarann, Milan Stefán Jankovic, en hann er einnig með lausan samning eftir sumarið.

VF-mynd/Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024