„Stálu sigrinum“
Keflavíkurstúlkur töpuðu naumlega í dag, 3-2, gegn Breiðablik í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á Kópavogsvelli og voru það Ólöf Helga Pálsdóttir og Donna Chayne sem gerðu mörk Keflavíkur. Það var Gréta Mjöll Samúelsdóttir sem skoraði sigurmark Breiðabliks aðeins tveimur mínútum fyrir leikslok.
„Þær stálu sigrinum, ekkert annað,“ sagði Ásdís Þorgilsdóttir, þjálfari Keflavíkurliðsins, í samtali við Víkurfréttir í dag. „Þetta var rosalega naumt og tvö markanna þriggja sem Breiðablik gerði voru úr langskotum. Annars er ég sátt við varnarleikinn hjá okkur því Breiðablik átti í mesta basli með vörnina okkar. Við hefðum átt að halda þetta út en það var sennilegast þolið og samhæfing milli leikmanna sem klikkaði í restina og það gerði útslagið. Þessi leikur fer bara í reynslubankann og við einbeitum okkur nú að því að laga það sem miður fór í leiknum í dag fyrir næsta leik,“ sagði Ásdís að lokum.
Keflavíkurstúlkur hafa þá leikið tvo leiki í Landsbankadeildinni, unnið einn og tapað einum. Næsti leikur liðsins er þann 31. maí gegn Íslandsmeisturum Vals og fer hann fram á Keflavíkurvelli.
VF-mynd/ frá leik FH og Keflavíkur í Landsbankadeildinni