Stærsta Taekwondodeild landsins
Taekwondodeild Keflavíkur er orðin stærsta deild landsins og síðasta mánudag mættu samtals 128 iðkendur á æfingar. Helgi Rafn Guðmundsson, bardagamaður og yfirþjálfari hjá Keflavík, sagði stöðuna
,,Við erum með fimm hópa í gangi og þeir eru allir fullir. Við erum fyrsta taekwondodeildin á Íslandi sem annar ekki eftirspurn og á síðustu tveimur vikum höfum við þurft að búa til tvo nýja flokka og þá hafa 110 nýliðar komið og fengið að prófa æfingar hjá okkur,” sagði Helgi en taekwondoæfingarnar fara fram í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ. ,,Við höfum kynnt okkar starf mjög vel að undanförnu og master Sigursteinn Snorrason hefur verið okkur innan handar og þessi springing hefur komið okkur öllum á óvart. Í dag erum við stærsta deildin á Íslandi og ætlum okkur að halda áfram á sömu braut. Fjölnismenn voru alltaf stærstir en þar eru í dag um 100 iðkendur,” sagði Helgi.
Sprengingu sem þessari fylgja ávallt vaxtaverkir og nú er svo búið að deildin hjá Keflavík er orðin uppiskroppa með dýnupláss. ,,Við eigum 300 m2 af taekwondodýnum og dýnuplássið er á enda því við önnum ekki fjöldanum. Þetta eru vissulega bæði vandræði og fagnaðarefni sem við erum að horfast í augu við þessa dagana en það eru allir spenntir fyrir vetrinum og efnilegir bardagmenn að koma fram hjá okkur,” sagði Helgi sem sjálfur er einn fremsti bardagamaður þjóðarinnar ásamt Birni Þorleifssyni úr Björkunum í Hafnarfirði.
Biðlistar eru nú komnir inn í taekwondodeildina hjá Keflavík og hægt er að skrá sig á biðlista á póstfanginu [email protected]
VF-mynd/ [email protected] - Helgi Rafn og félagar í Taekwondodeild Keflavíkur hafa þurft að setja upp biðlista fyrir iðkendur þar sem deildin er uppiskroppa með dýnupláss.