„Staðráðnir í að ljúka þessu með stæl“
Grindvíkingar mæta Haukum á sunnudaginn í 19. umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu en leikurinn fer fram í Grindavík. Leikurinn er mikilvægur fyrir Grindvíkinga sem með sigri ættu líklega að komast fyrir horn í fallbaráttu deildarinnar.
„Hljóðið er gott í okkur. Við erum staðráðnir í að ljúka þessu með stæl og taka þessa fjóra leiki sem eftir eru,“ svaraði Orri Freyr Hjaltalín, fyrirliði Grindavíkur, þegar hann VF innti hann eftir stemmningunni í herbúðum Grindvíkinga.
Sem kunnugt er var gengi liðsins slakt framan af sumri en með þjálfaraskiptum urðu ákveðin kaflaskil og hefur verið allt annað að sjá til liðsins í undanförnum leikum.
„Við vissum allan tímann að það byggi meira í liðinu heldur en við höfðum verið að sýna. Hann [Ólafur Örn þjálfari] kom strax inn í fyrsta leik og náði að kveikja neistann sem vantaði,“ svarar Orri Freyr aðspurður um þessi kaflaskil. „Við erum ennþá í bullandi fallbaráttu en getum komist í góð mál með sigri á sunnudaginn. Þetta er eiginlega sex stiga leikur því þetta er búið fyrir Haukana tapi þeir í þessum leik. Þeir munu því leggja allt í sölurnar.“
-Og þið mætið með fullskipað lið?
„Það eru allir heilir hjá okkur og í góðu standi. Sumarið hefur verið vonbrigði hingað til en við höfum tækifæri í lokin til að sýna hvað býr í þessu liði og erum staðráðnir í að sýna hvað við getum.“