Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sportspjall: Jóhann B. Guðmundsson
Föstudagur 24. mars 2006 kl. 13:43

Sportspjall: Jóhann B. Guðmundsson

Jóhann B. Guðmundsson, knattspyrnumaður hjá GAIS í Svíþjóð, hefur átt ljómandi góða byrjun hjá félaginu en hann samdi til eins árs við GAIS. Liðið er nýkomið upp í sænsku úrvalsdeildina en hefur átt góðu gengi að fagna á undirbúningstímabilinu. Deildarkeppnin hefst um helgina.

Á miðvikudaginn lagði GAIS Noregsmeistara Vålerenga að velli 2 – 1 í æfingaleik þar sem Jóhann lagði upp annað markið og skoraði hitt. Víkurfréttir höfðu samband við Jóhann sem segist nú vera að nálgast sit toppform.

„Okkur er spáð falli og það er ágætt, þá er engin pressa á okkur. Aðstæðurnar hér eru ágætar en verið er að byggja upp nýja félagsaðstöðu og við spilum á sama velli og hin Gautaborgarliðin,“ sagði Jóhann en um er að ræða tvo velli sem Gautaborgarliðin hafa til afnota, sá minni rúmar 15 þúsund áhorfendur en sá stærri getur tekið um 40 þúsund manns. GAIS og önnur Gautaborgarlið leika fyrst um sinn á stærri vellinum þar sem er að finna upphitað gras en veturinn hefur leikið minni leikvanginn grátt sökum kulda og frosts.

Varðandi samkeppni um stöður í liðinu sagði Jóhann að hópurinn hjá GAIS mætti vera stærri. „Ég geri ráð fyrir að spila mikið á komandi leiktíð,“ sagði Jóhann sem er á vinstri kantinum og fær nokkuð frjálsræði þar. „Við spilum 4-5-1 og á vinstri kantinum fæ ég að vera aðeins frjáls og ber ekki mikla varnarskyldu en kem vitaskuld til baka og hjálpa til í vörninni.“

Þjálfari GAIS er Roland Nilson en hann er nýhættur að spila og var í sænska landsliðinu á sínum tíma, einnig lék hann með Sheffield Wednesday í ensku deildinni og var um hríð stjóri hjá Coventry. „Roland er ferkar varnarsinnaður þjálfari og því byggist okkar leikur mikið á vörninni en hann er gamall varnarjaxl,“ sagði Jóhann.

Æfingarnar hafa verið strangar að undanförnu enda undirbúningstímabilið að líða undir lok hjá GAIS. Liðið lék 8 leiki á undirbúningstímabilinu, sigraði í 7 leikjum og gerði eitt jafntefli en er engu að síður spáð falli á komandi leiktíð. Aðspurður um komandi leiktíð sagði Jóhann að lokum að honum fyndist raunhæft að liðið ætti að geta lokið næstu leiktíð um miðja deild en mikilvægast væri að halda nýfengnu sæti sínu í deildinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024