Sportmannapistill: Keflavík – Breiðablík 5 - 0
Eftir heldur rýra uppskeru í síðustu leikjum var að duga eða drepast fyrir Keflvíkinga að ná í stig og lyfta sér ofar í töflunni.
Töluverðar hreyfingar hafa verið á leikmannahópi Keflvíkinga á síðustu dögum og því hætt við að það kynni að hafa einhver áhrif á liðið og höfðu menn því örlitlar áhyggjur fyrir leikinn. Breytingar á liðsskipan með Stefán í framlínu ásamt Guðmundi Steinarssyni, Baldur á miðjunni með Bóa, Simun og Jónasi og loks Hallgrímur Jónasson í stöðu vinstri bakvarðar. Keflvíkingar fengu nánast dauðafæri á annarri mínútu leiksins eftir stungusendingu inn fyrir vörn Blika þar sem varnarmaður Blika sá við Guðmundi Steinarssyni sem virtist geta gert betur.
Blikar voru heldur ákveðnari eftir þetta en á 15 mínútu dró til tíðinda þegar Stefán annar tveggja bestu manna Keflvíkinga í leiknum skoraði eftir góða sókn upp vinstri kantinn með marki á fjærstöng. Blikar voru varla búnir að jafna sig á fyrsta markinu þegar Keflvíkingar skoruðu mark númer tvö og var þar á ferðinni Baldur Sigurðsson eftir sendingu frá Guðmundi Steinarssyni enn frá vinstri kanti. Á 44 mínútu dró enn til tíðinda þegar Stefán skoraði eftir að Guðmundur Steinarsson hafði skallað boltann í stöng.
Enn bættu Keflvíkingar við snemma í síðari hálfleik með marki frá Baldri og loks innsiglaði Simun sigur með 5 marki leiksins eftir góðan undirbúning Magga Þorsteins, Gumma Steinars og Jónasar. Leikur Keflvíkinga var virkilega skemmtilegur að þessu sinni, góð nýting á færum og þrátt fyrir að Blikar hafi ekki átt sinn besta dag spilar enginn betur en andstæðingur leyfir. Erfitt er á svona degi að taka menn út en mjög ánægjulegt var að sjá til Stefáns og Hallgríms í leiknum og virðist sem við séum búnir að finna vinstri bakvörð fyrir liðið í Hallgrími sem átti mjög góðan leik að þessu sinni. Aðrir leikmenn voru einnig að spila vel, miðjan mjög góð og Guðmundur Steinarsson fann sig vel í leiknum.
Vörnin var líklega að spila sinn besta leik i töluverðan tíma en brestir eru þó í varnarleiknum. Lítið reyndi á Ómar í markinu en þörf á því að hann stjórni betur fyrir framan sig og fari varlega í úthlaup í teignum. Reikna má með því að með Hallgrími sé búið að finna þá vörn sem við spilum á út mótið og reikna má með því að hún styrkist með hverjum leik. Guðmundur stýrði vörninni með sóma í leiknum og vantar aðeins uppá að aðrir varnarmenn fylgi honum eftir sem kemur með samspili. Sigurinn var gott veganesti fyrir leik helgarinnar og þar kemur til með að reyna enn frekar á nýja vörn liðsins. Að lokum var ánægjulegt að sjá Kristján nota tækifærið og setja inn unga leikmenn undir lokin.
Með baráttukveðju,
fyrir hönd Sportmanna,
Karl Finnbogason.