Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sportmannapistill: Grindavík-Keflavík
Mánudagur 29. maí 2006 kl. 11:35

Sportmannapistill: Grindavík-Keflavík

Hér á eftir fylgir pistill sem Kári Gunnlaugsson úr Sportmönnum, samtökum fyrrum leikmanna Keflavíkur í knattspyrnu, skrifaði eftir leik Grindavíkur og Keflavíkur. Hann átti að birtast strax eftir leikinn, en það misfórst í annríki á fréttastofu VF. Beðist er velvirðingar á þeim leiðu mistökum, en pistillinn kemur hér og innan skamms kemur pistill frá Eiríki Hermannssyni um sigurleikinn gegn KR.

Grindavík – Keflavík miðvikudag 24. maí kl 20:00 á Grindavíkurvelli.

Það var kuldalegt í Grindavík og vindurinn var mikill og alveg á annað markið. Það var nokkur kvíði í mér fyrir leikinn, fannst við ekki hafa fundið taktinn í fyrstu tveimur leikjunum og var viss um að Grindavík myndi gefa allt í leikinn, sérstaklega eftir að hafa misst niður nánast unnin leik í Árbænum í síðustu umferð. Buddy(6) var enn meiddur og Baldur(11) því í miðju varnarinnar með Guðmundi Mete(2) Guðjón(3) í hægri og Miles (21) í vinstri. Á miðjunni voru Jónas (5) Severino (27) Hólmar Örn (7) Simun (10) og Magnús Þ (17). Guðmundur Steinars (9) var frammi.

Simun og Severino skiptust á um að vera á köntunum. Í fyrri hálfleik fannst mér liðið ekki ná tökum á leiknum, menn dekkuðu of langt frá og gáfu sérstaklega Kekic (9), Jóhanni Þórhalls (18) og Óskari Hauks (20) í Grindavíkurliðinu tækifæri á að snúa sér með boltann og koma á vörnina. Upp úr svona atviki kom einmitt mark Grindvíkinga, ekki nógu góð varnarvinna. Stuttu áður fengu Grindvíkingar vítaspyrnu en sem betur fer fór boltinn í þverslá og yfir. Vinstri bakvörðurinn G Miles var óöruggur og ekki í takt við leikinn, hann lenti nokkrum sinnum í vandræðum og missti menn upp í hornið og skapaði það nokkra hættu. Markið sem við skoruðum úr vítaspyrnu kom eftir að Magnús Þ fyldi eftir skoti á mark, þar sem markvörður Grindvíkinga hélt ekki boltanum og Magnús var fyrstur til og braut þá markvörðurinn á honum. Guðmundur Steinars skoraði af öryggi úr vítinu. Nokkuð jafnræði var með liðunum eftir það, en síðustu tíu mínútur breytti liðið taktíkinni Maggi fór á kantinn og Severino var fyrir framan Hólmar Örn og Jónas á miðjunni. Við þetta náðum við betri tökum á leikum og hefðum með smá heppni átt að bæta við marki eða mörkum. Í Síðari hálfleiknum komum við miklu öflugri til leiks, Miles tekinn útaf og Branislav (Branko) (23) kominn í bakvörðinn, góð skipting.

Við réðum algjörlega leiknum þrátt fyrir að leika gegn sterkum vindi, við gáfum Grindvíkingum aldrei möguleika á að ná upp spili, og vorum fljótir að loka á þá.

Mér fannst við vera óheppnir að klára þetta ekki, Stefán Örn (29) og Ólafur Jón (19) komu inná fyrir Guðmund Steinars og Severino síðustu 20 mínúturnar og fékk Ólafur Jón dauða færi til að klára leikinn, átti gott skot en markvörðurinn var heppinn og fékk boltann beint í fangið. Varla er hægt að segja Grindvíkingar hafi ógnað marki okkar í seinni hálfleik þó þeir hafi haft vindinn í bakið. Held að seinni hálfleikurinn hafi verið með því besta sem liðið hefur sýnt í fyrstu umferðunum, en meiri ógnun vantar þó framávið. Bestu menn liðsins í kvöld voru Jónas og Hólmar sem réðu miðjunni ( sérstaklega eftir fyrstu 35 mín). Ómar var öruggur í markinu var nærri búinn að verja þegar þeir skoruðu. Guðmundur Mete var traustur Baldur og Guðjón komust vel frá sínu í vörninni og Branko mjög góður í seinni hálfleik, mun betri leikmaður en Miles. Simun svolítið mistækur og vandar sig ekki nóg í skotunum, en barðist þó vel í leiknum. Severinó nokkuð nettur í spili en dettur svolítið út og vantar meira úthald. Magnús Þ var betri eftir að hann var færður út á kantinn en hvarf svolítið, gerði þó virkilega vel þegar hann fékk vítaspyrnuna. Finnst Guðmundur Steinars ekki vera kominn í sitt besta form, en vonandi smellur þetta saman í næsta leik. Kvíðinn sem var í mér á leiðinni til Grindavíkur hafði snúist uppí svekkelsi yfir því að hafa ekki unnið leikinn. Það er góðs viti.

ÁFRAM KEFLAVÍK !
Kári Gunnlaugsson
Sportmaður no: 20
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024