Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Spiluðu golf til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja
Miðvikudagur 16. september 2009 kl. 16:38

Spiluðu golf til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um síðustu helgi fór fram golfmót á vegum Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Tilgangur mótsins var að safna peningum til styrktar góðgerðarmálum, en allur ágóði mótsins rann óskiptur til Velferðarsjóðs Suðurnesja. Þátttaka var með ágætum en veður til golfmennsku hefur ekki verið sérlega gott undanfarið og á því var engin undantekning á laugardaginn. Mótsgestir létu veðrið ekki á sig fá, spiluðu allar 18 holurnar og komu svo inn í heita súpu og glæsilega verðlaunaafhendingu.

Samtals söfnuðust 177 þúsund krónur og mætti Skúli Ólafsson sóknarprestur til að veita styrknum formlegar viðtökur og fór yfir hlutverk Velferðarsjóðsins.
Velferðarsjóði Suðurnesja er ætlað að styðja við bakið á fjölskyldum og einstaklingum á svæðinu, umfram þau úrræði sem þegar eru í boði. Sjóðurinn er starfræktur í samstarfi við Hjálparstarf Kirkjunnar. Nánari upplýsingar um sjóðinn er hægt að finna á vef Keflavíkurkirkju, www.keflavikurkirkja.is


Stjórn Heimis vildi koma á framfæri sérstökum þökkum til Golfklúbbs Suðurnesja, en hann var samstarfsaðili félagsins í þessu verkefni. Að auki vildi stjórnin þakka þeim fyrirtækjum, mótsgestum og öðrum einstaklingum sem lögðu verkefninu lið. Heimir f.u.s mun framvegis hafa góðgerðarmótið sem árlegan viðburð á vegum félagsins.