Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Spennustigið verður að vera rétt,“ segir Sverrir Þór
Sverrir með Íslandsmeistarabikar kvenna í fyrra.
Föstudagur 15. febrúar 2013 kl. 12:16

„Spennustigið verður að vera rétt,“ segir Sverrir Þór

Davíð Ingi Bustion ekki með Grindvíkingum í Höllinni á morgun

Að venju eru Suðurnesjamenn á leið í Laugardalshöll þegar bikarúrslitin í körfubolta karla og kvenna fara fram þar á laugardag. Í karlaflokki eigast við Grindvíkingar og Stjörnumenn en síðast urðu Grindvíkingar bikarmeistarar árið 2006 eftir sigur á Keflvíkingum. Keflvíkingar munu væntanlega fjölmenna í Laugardalshöll til þess að styðja við bakið á kvennaliði félagsins sem mæta Valsstúlkum. Síðast kom bikarmeistaratitill í hús hjá Keflavíkurstúlkum leiktíðina 2011-12. Víkurfréttir heyrðu í þjálfurum liðanna og könnuðu stemninguna fyrir bikarúrslitin.

Sverrir Þór Sverrisson fer annað árið í röð með lið í Laugardalshöll. Í fyrra lyfti hann bikarnum með Njarðvíkurstúlkum en nú fer hann fyrir efsta liði Dominos-deildar karla, Grindavík.
„Við erum búnir að bíða fullir eftirvæntingar eftir þessum leik. Nú er loksins komið að þessu,“ sagði Sverrir þegar Víkurfréttir náðu af honum tali. Sverrir segir undirbúning fyrir þennan leik svipaðan og vanalega þó svo að um stórleik sé að ræða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Andstæðingar Grindvíkinga er Stjarnan frá Garðabæ undir stjórn Teits Örlygssonar. „Ég myndi segja að liðin séu mjög jöfn að styrkleika. Þó svo að þeir séu nokkrum stigum á eftir okkur í töflunni. Þeir hafa verið að tapa leikjum naumlega og gætu hæglega verið ofar í töflunni. Ég er ekki í vafa um að þetta verði hörkuleikur,“ sagði varnarjaxlinn fyrrverandi.


Grindvíkingar eru í fínu ásigkomulagi fyrir heimsóknina í Höllina ef frá er skilinn Davíð Ingi Bustion. „Það brotnaði bein í handarbakinu á honum í leiknum gegn Njarðvík á dögunum og verður hann því frá næstu 5 vikurnar,“ segir Sverrir.

„Eins og allir vita er bikarinn allt önnur keppni en í deildinni og nú er bara um einn stakan leik að ræða. Nú einbeitum við okkur bara að því verkefni og mætum tilbúnir á laugardaginn með spennustigið rétt.“
Sverrir þekkir það að taka þátt í bikarúrslitum bæði sem leikmaður og þjálfari. „Þegar hvert einasta tímabil hefst þá hugsar maður til þess að vinna deildina og komast í Höllina. Það gerir tímabilið ennþá skemmtilegra að taka þátt í þessum leik, og ég tala nú ekki um ef maður vinnur.“