Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Spennusigur Njarðvíkinga að Hlíðarenda
Laugardagur 17. desember 2011 kl. 18:48

Spennusigur Njarðvíkinga að Hlíðarenda

Valur tók á móti Njarðvík að Hlíðarenda í Iceland Express deild kvenna í dag. Grænar voru búnar að endurheimta Bandaríkjamennina Lele Hardy og Shanae Baker-Brice en þær þurftu að fara í flugferð sökum pappírsmála á dögunum og léku ekki með gegn Fjölni í síðustu umferð. Þær bandarísku voru á tánum í Njarðvíkurliðinu í dag og skoruðu 54 af 85 stigum Njarðvíkinga í leiknum. Njarðvík fór með 83-85 spennusigur af hólmi þar sem Valur freistaði þess að stela sigrinum með þriggja stiga skoti um leið og leiktíminn rann út.

Valskonur mættu með svæðisvörn til leiks en þær voru ekki fullmannaðar í dag með Signýju Hermannsdóttur í borgaralegum klæðum. Shanae Baker-Brice opnaði leikinn fyrir Njarðvíkinga með þriggja stiga körfu og skömmu síðar kom hún með annan slíkan og gestirnir leiddu 5-10 og þá var röðin komin að Petrúnellu Skúladóttur sem gerði sex stig í röð fyrir Njarðvíkinga og breytti stöðuninn í 9-16. Erna Hákonardóttir lét sitt ekki eftir liggja fyrir utan þriggja stiga línuna og jók muninn fyrir Njarðvíkinga í 9-21 og grænar leiddu svo 15-24 að loknum fyrsta leikhluta. Valur tók tók 6-3 rispu undir lok fyrsta leikhluta þar sem Unnur Lára Ásgeirsdóttir átti ljómandi góða spretti.

Í upphafi annars leikhluta fóru Valskonur að fikra sig nærri og ekki leið á löngu uns sauð uppúr í herbúðum Njarðvíkinga. Á um tveggja mínútna kafla fékk liðið í tvígang dæmt á sig tæknivíti, fyrst þjálfaraparið og svo bekkurinn. Þessi tvö tæknivíti gáfu Valskonum alls 10 stig! Í báðum vítunum skoraði Valur úr vítaskotunum, tók innakast og skoraði svo þriggja stiga körfu, fyrst Kristrún Sigurjónsdóttir og svo Berglind Karen Ingvarsdóttir sem reyndar setti tvo í röð og kom Val í 38-30. Magnaður kafli hjá Val en að sama skapi voru Njarðvíkingar afar ósáttir við tæknivítin og þá sér í lagi það síðara.

Þrátt fyrir mótlætið gáfu Njarðvíkingar ekki eftir og klóruðu sig að nýju upp að hlið Vals og skiptust liðin á forystunni undir lok fyrri hálfleiks en það var Lele Hardy sem náði yfirhöndinni fyrir Njarðvíkinga þegar hún skoraði og fékk villu að auki, setti vítið og kom grænum í 44-46 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Lele Hardy var með 18 stig og 12 fráköst hjá Njarðvík í hálfleik og Shanae Baker-Brice var með 14 stig og 5 fráköst. Hjá Val var Guðbjörg Sverrisdóttir með 12 stig og Melissa Leichlitner 10.

Berglind Karen Ingvarsdóttir kom Valskonum í 47-46 með þriggja stiga körfu í upphafi síðari hálfleiks og liðin skiptust svo á forystunni næstu mínútur en í stöðunni 55-56 skildu leiðir og Njarðvíkingar einfaldlega stungu af. Grænar voru miklu grimmari, pressuðu á Valskonur sem áttu bágt með að finna Njarðvíkurkörfuna og Njarðvík vann því leikhlutann 26-13 með grimmum varnarleik og fyrir vikið varð sóknarleikurinn auðveldur en Valskonur voru að grýta boltanum frá sér hægri vinstri og eftir 30 mínútna leik höfðu þær tapað 21 bolta.

Í fjórða leikhluta var að duga eða drepast fyrir Val, heimakonur opnuðu síðasta leikhlutann 10-0 og minnkuðu þannig muninn í 67-72 áður en Njarðvíkingar náðu að skora. Shanae Baker-Brice sleit Njarðvík frá að nýju með þriggja stiga körfu og staðan 69-79. Valskonur neituðu að láta skilja sig eftir og með Guðbjörgu Sverrisdóttur í broddi fylkingar náðu þær að komast yfir 83-82 þegar 1.17mín voru eftir. Lele Hardy jafnaði leikinn fyrir Njarðvík í 83-83 þegar 30 sekúndur voru til leiksloka. Í næst Valssókn var dæmt sóp á Guðbjörgu Sverrisdóttur sem þótti taka full hraustlega undir boltann í einu knattrakinu og Njarðvíkingar áttu því boltann.

Shanae Baker-Brice vippaði sér inn í Valsteiginn þegar 5 sekúndur voru eftir og þar var brotið á henni. Baker-Brice var svellköld á vítalínunni og kom Njarðvíkingum í 83-85. Valskonur áttu síðustu sóknina og komu með laglega fléttu sem endaði í höndum Guðbjargar sem reyndi þriggja stiga skot en það vildi ekki niður og Njarðvíkingar fögnuðu sigri í spennuslag.


Lele Hardy var með svakalega tvennu í liði Njarðvíkinga, 30 stig og 20 fráköst. Shanae Baker-Brice bætti við 21 stig, 11 fráköstum og 6 stoðsendingum. Petrúnella Skúladóttir var svo með 17 stig og 4 fráköst.

Hjá Valskonum var Guðbjörg Sverrisdóttir skeinuhætt með 22 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Melissa Leichlitner bætti við 15 stigum og 8 stoðsendingum og Berglind Karen Ingvarsdóttir gerði 12 stig og gaf 5 stoðsendingar.

Umfjöllun Karfan.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024