Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Spennusigur hjá Keflavík
Laugardagur 18. mars 2006 kl. 19:56

Spennusigur hjá Keflavík

Íslandsmeistarar Keflavíkur eru komnir í undanúrslit Íslandsmótsins eftir 84 – 87 sigur á Fjölni í Grafarvogi í dag. AJ Moye fór á kostum í leiknum, gerði 38 stig og tók 10 fráköst. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Keflvíkingar höfðu sigur að lokum.

Rétt eins og í fyrri leik liðanna var mikil pressa sett á bakverði Fjölnis sem áttu oft í töluverðum vandræðum með að koma boltanum upp völlinn. Í dag gekk það þó betur en í Sláturhúsinu á fimmtudag. Eftir 1. leikhluta leiddu gestirnir með 2 stigum, 22 – 24 en náðu mest um 10 stiga forskoti í 2. leikhluta. Skipti þar sköpum góð rispa frá Jóni N. Hafsteinssyni í Keflavíkurliðinu en Jón var fremstur í svæðisvörn Keflavíkur og lék Fjölnismenn grátt.

Fjölnir vann upp muninn og rétt eins og í 1. leikhluta leiddu Keflvíkingar með 2 stigum þegar gengið var til leikhlés, 43 – 45.

Síðari háfleikur var rétt eins spennandi og sá fyrri en Grady Reynolds fékk sína fjórðu villu í leikhlutanum og gat lítið beitt sér eftir það. Staðan var 63 – 68 Keflavík í vil þegar liðin gengu til 4. leikhluta en Reynolds gerði flautukörfu í lok 3. leikhluta sem kveikti smá bál í heimamönnum. Reynolds fékk svo dæmda á sig sóknarvillu snemma í 4. leikhluta og þar með sína fimmtu villu og varð frá að víkja. Þrátt fyrir mótlætið héldu heimamenn ótrauðir áfram og jöfnuðu metin í 82 – 82.

Keflvíkingar komust yfir 82 – 84 en aftur jöfnuðu Fjölnismenn og staðan þá 84 – 84. Nokkur mistök í röðum Fjölnismanna á lokasekúndum leiksins kostuðu þá oddaleikinn og Keflvíkingar fögnuðu sigri 84 – 87.

Eins og áður segir var AJ Moye stórkostlegur en þeir Jón N. Hafsteinsson (11 stig) og Arnar Freyr Jónsson (12 stig) voru einnig sterkir í Keflavíkurliðinu. Nemanja Sovic var þokkalegur í fyrri hálfleik en dró vagninn fyrir Fjölni í þeim síðari og lauk leik með 25 stig og 12 fráköst, næstur honum var Grady Reynolds með 20 stig.

Tímabilinu er því lokið hjá Fjölnismönnum en Keflvíkingar halda áfram í undanúrslitin.

Tölfræði leiksins

VF – myndir/ JBÓ, [email protected]

 

 

 

 


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024