Spennuleikir í kvöld er Grindavík og Keflavík sigruðu
Bæði Keflavík og Grindavík áttu leik í kvöld í Iceland Express-deild karla. Grindavík fékk lærisveina Örvars Kristjánssonar í heimsókn í Röstina og Keflvíkingar fóru á Sauðárkrók og léku við Tindastól.
Í Röstinni var boðið uppá bráðfjörugan leik þar sem úrslit réðust ekki fyrr en á síðustu stundu. Leikurinn var jafn framan af og Grindvíkingar fóru með forystu inn í klefa í leikhlé, 47-44. Seinni hálfleikur var síðan sveiflukenndur og gríðarlega spennandi. Í þriðja leikhluta var allt útlit fyrir að Grindvíkingar væru að klára leikinn, munurinn kominn í 15 stig þegar fjórði leikhluti hófst, 75-60 fyrir Grindavík. Fjölnismenn voru ekki á því að gefast upp og skoruðu 8 næstu stig og hægt og bítandi minnkuðu þeir muninn þar til ein og hálf mínúta voru eftir leiks, þá jöfnuðu þeir leikinn 86-86. Þegar svo 12 sekúndur lifðu af leik eru Fjölnismenn yfir 89-90 og Grindvíkingar eiga boltann. Ólafur Ólafsson tók þá á skarið og fiskaði villu í þriggjastiga skoti og pressan á pilti enda ekki nema 4 sekúndur eftir. Hann setti tvö fyrstu vítin niður en geigaði á því þriðja og Fjölnismenn náðu ekki að skora á þeim skamma tíma sem eftir var og sigurinn Grindvíkinga.
Atkvæðamestir hjá Grindavík í kvöld: Mladen Soskic 28 stig, Ólafur Ólafsson 20 stig/7 fráköst, Ryan Pettinella 11 stig/15 fráköst.
Ekki var spennan síðri norður í landi hjá Keflvíkingum. Leikurinn var hnífjafn allan tímann og réðust úrslit ekki fyrr en undir lokin þegar Tindastólsmenn náðu ekki að setja niður þrist við lokaflautuna þegar Magnús Gunnarsson hafði komið Keflavík tveimur stigum yfir skömmu áður úr vítaskoti. Þrjú stig komu frá Ciric í stöðunni 90-90 þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka. Thomas Sanders fékk slæma byltu á síðustu sekúndum leiksins og var hann studdur af velli. Keflvíkingar náðu því í góðan útisigur 92-94.
Keflvíkingar munu svo taka á móti Grindvíkingum í lokaumferð deildarinnar í Toyota-Höllinni.
Atkvæðamestir hjá Keflavík í kvöld: Tomas Sanders 24 stig, Magnús Gunnarsson 15 stig, Sigurður Þorsteinsson 15 stig, Andrija Siric 14 stig/9 fráköst.
Ljósmyndir frá leik Grindavíkur og Fjölnis má sjá í ljósmyndasafni Víkurfrétta með því að smella hér.
VF-Myndir: Siggi Jóns