Spennandi verkefni í Tyrklandi hjá Örvari Kristjánssyni
Njarðvíkingurinn Örvar Þór Kristjánsson sem þjálfar lið Fjölnis í Iceland Express deild karla verður aðstoðarframkvæmdastjóri einhverra stærstu körfuboltabúða í Evrópu, Camp Future Stars sem fara fram í Tyrklandi í sumar, 17.-31. júlí. Búðirnar eru ætlaðar efnilegum leikmönnum 12 – 16 ára gömlum og eru í heilar 2 vikur. Búðirnar eru gríðarlega umfangsmiklar og fjölbreyttar enda eins og fyrr segir standa þær yfir í 2 vikur.
Leikmenn og starfsfólk frá 40 löndum taka þátt í þessum búðum svo það er alþjóðlegur blær yfir þessu öllu saman. Það þykir afar merkilegt að Íslendingur sé að þjálfa í körfuboltabúðum hjá Tyrkjum enda Tyrkir ein af fremstu körfuboltaþjóðum heimsins. Jón Björn Ólafsson hjá Karfan.is hafði samband við Örvar og spurði kappann hvernig þetta kom allt saman til ásamt því að forvitnast um verkefnið.
Hvernig stendur á því að íslenskur þjálfari er að fara að stjórna körfuboltabúðum í Tyrklandi?
Fahrettin Gozet stjórnarmaður í tyrkneska körfuboltasambandinu er stofandi Camp Future Stars búðanna sem hafa verið í gangi síðan 1993. Fahrettin var einmitt frumkvöðulinn af Children of the World búðunum sem voru haldnar samhliða HM í Istanbul síðasta sumar þar sem einn þjálfari og 2 leikmenn frá 110 löndum komu saman. Fahrettin þykir einn fremsti skipuleggjandi íþróttabúða í heiminum í dag og er gríðarlega virtur fyrirlesari út um allan heim, þar á meðal við virta bandaríska háskóla. Við kynntumst vel í fyrrasumar en ég var einn af þremur fulltrúum Íslands í Children of the World. Nú í vetur hafði hann samband og bauð mér að taka þátt í þessu verkefni sem að mínu mati var ómögulegt að hafna. Ég verð einn af 3 aðstoðarmönnum framkvæmdastjóra búðanna og tek þátt í öllu undirbúningsferlinu sem í raun hófst í desember 2010. Búðirnar hefjast 17 júlí en ég fer utan c.a 10 dögum fyrr til þess að taka þátt í þjálfun starfsfólks og lokaskipulagningu búðanna. Ætla svo að eyða einhverjum tíma í Tyrklandi eftir búðirnar enda stórkostlegt land.
Hvar eru búðirnar og hvernig búðir eru þetta nákvæmlega?
Vinsældir þessara búða í Tyrklandi eru gríðarlegar og ávallt langir biðlistar en í ár verður þetta stækkað og ákveðin mörg sæti í búðunum frátekin fyrir leikmenn frá öðrum löndum, skráningar eru komnar frá 5 heimsálfum svo þetta verður fjölbreytt flóra leikmanna. Camp Future Stars búðirnar eru alveg einstakar, ólíkar öllum öðrum búðum. Búðirnar eru staðsettar í Bursa nálægt Istanbul í Tyrklandi á fallegu skíðahóteli uppí fjöllum. Þarna eru allar aðstæður til fyrirmyndar, íþrótta- og gistiaðstaða. Búðirnar eru ekki eingöngu um körfubolta þó svo það sé megináherslan heldur eru líka fyrirlestrar, skemmtanir, enskunám (körfubolta-enska) sálfræðikúrsar, hópefli og margt, margt fleira. Þarna er fagfólk að störfum, læknar, sálfræðingar, leiðbeinendur, þjálfarar og fleira. Allar upplýsingar er hægt að fá hérna á þessari síðu búðanna og áhugasamir geta líka alltaf haft beint samband við mig hvenær sem er. Það er of langt mál að fara yfir allt sem er í boði en hér er slóðin.
http://www.campfuturestars.com/?1,2,3,6
Eiga einhverjir íslenskir leikmenn erindi þarna út?
Klárlega! Nú þegar hafa 4 leikmenn og forráðamenn þeirra sett sig í samband við mig án þess að þetta hafi verið auglýst. Þetta kostar auðvitað peninga en við erum að tala um 2 vikur með öllu inniföldu í ótrúlegu umhverfi, þar sem leikmaðurinn þarf að geta sýnt ákveðið sjálfstæði og verið opinn fyrir að kynnast nýju fólki. Þetta gefur nefnilega svo miklu, miklu meira en bara körfuboltaþjálfun heldur einnig ógleymanlega menningarlega reynslu. Það er ekki svo lítils virði fyrir leikmenn sem stefna t.d á atvinnumennsku eða nám erlendis seinna meir. Þeir tveir leikmenn sem fór með mér á Children of the World töluðu um ógleymanlega reynslu, þessar búðir eru feti framar að mínu mati, mun meiri körfubolti og áhersla á einstaklinginn. Margir leikmenn sem hafa farið þarna í gegn um árin sem hafa náð langt í Tyrklandi og t.d í Bandaríkjunum.
Áhugasamir geta haft beint samband við Örvar í síma, vegna umfangs búðanna og ferðalags er hann tilbúinn að setjast niður með fólki og fara yfir þetta frá A-Ö enda gríðarlega mikið magn upplýsinga. GSM: 669 9641.
Hvað gera svona búðir fyrir þig sem þjálfara?
Opna dyr, gefa mér sambönd sem að öllu jöfnu er ómögulegt að fá. Vinna með ungum efnilegum leikmönnum, læra af þeim þjálfurum sem eru þarna. Þessar búðir eru ekki síður lærdómur og þroskandi fyrir mig sem persónu og þjálfara. Tyrkir eru frábær körfuboltaþjóð, enduðu í öðru sæti á síðasta HM og að þeir opni dyr sínar fyrir Íslending þykir mér merkilegt. Ég ætla bara að standa mig og fá eins mikið út úr þessu og ég get. Bjarni Magnússon mun sjá til þess að Fjölnisdrengirnir mínir puði á meðan ég er úti, það verður ekkert frí drengir!