Spennandi leikir hjá Keflavík og UMFN í kvöld
- Keflavík mætir Hetti á heimavelli og UMFN mætir KR á útivelli
Lið Reykjanesbæjar í Dominos-deildinni eiga bæði leiki í kvöld. Keflavík mætir Hetti í TM-höllinni klukkan 19:15 og verður frítt inn á leikinn í boði Kaffi DUUS. Eysteinn Bjarni Ævarsson leikmaður Hattar, sem lék með Keflavík síðustu tvö tímabil, mætir á sinn gamla heimavöll. Ragnar Gerald Albertsson, leikmaður Keflavíkur mun að öllum líkindum ekki gefa neitt eftir á móti sínum gömlu liðsfélögum í Hetti.
Njarðvík mætir KR í DHL-höllinni klukkan 19:15 og mun Haukur Helgi Pálsson, sem nýlega gekk til liðs við Njarðvíkinga, spila sinn fyrsta leik með liðinu í kvöld og jafnframt sinn fyrsta úrvalsdeildarleik hér á landi. Haukur þykir einn besti körfuboltamaður landsins og stóð sig vel á Evrópumótinu í körfubolta síðasta sumar og bíða eflaust margir spenntir eftir að sjá hann spreyta sig gegn Íslandsmeisturum síðasta tímabils.