Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Spenna í upphafi körfuvertíðar
Föstudagur 24. október 2003 kl. 15:50

Spenna í upphafi körfuvertíðar

Mikil spenna hefur verið í körfuboltanum það sem af er vetri og hafa liðin af Suðurnesjunum staðið sig vel eins og við var að búast. Um helgina fara fram leikir bæði í Intersport-deild karla og í 1. deild kvenna.


KEFLAVÍK-BREIÐABLIK
Keflavíkurliðið tapaði óvænt fyrir ÍR á útivelli í síðustu umferð. Guðjón þjálfari kenndi slakri vörn sinna manna um ósigurinn og sagði að slíkt þyrfti að laga fyrir næstu leiki. Hann ásamt hinum þjálfara Keflavíkur, Fali Harðarsyni, ætla sér að fara rækilega yfir ÍR leikinn til að koma í veg fyrir aðra eins frammistöðu.
Á pappírnum ætti Keflavík ekki að eiga í erfiðleikum með Breiðablik, sem hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni, en allt getur gerst í körfunni eins og hefur svo oft komið í ljós og góð mæting stuðningsmanna Keflavíkur á leikinn ætti að tryggja hagstæð úrslit.

ÞÓR ÞORL.-NJARÐVÍK
Leikur Njarðvíkur gegn nýliðum Þórs ætti að vera mjög athyglisverður þar sem heimamenn hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í deildinni og virðast til alls líklegir. Njarðvíkingar koma hins vegar til leiks með sjálfstraustið í lagi eftir að hafa borið sigurorð af KR í skemmtilegum leik um síðustu helgi. Sá leikur kom eftir tap gegn Grindavík í tvíframlengdum leik í fyrstu umferð. Friðrik Ragnarsson, þjálfari Njarðvíkur á von á hörkuleik enda hafa gestgjafarnir sýnt hvers þeir eru megnugir og stimplað sig inn í deildina með krafti.

GRINDAVÍK-KFÍ
Grindvíkingar hljóta að teljast sigurstranglegri fyrir þennan leik þar sem þeir hafa unnið báða sína leiki en Ísfirðingar aftur á móti tapað sínum fyrstu leikjum sem voru báðir á heimavelli. Ekkert lið sækir auðveldan sigur til Grindavíkur og eru gestirnir lítt öfundsverðir af þrautinni sem er framundan. Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur varar þó við því að líta á KFÍ sem auðvelda bráð, enda eru þeir að fá til sín júgóslavneskan leikmann sem spilar sinn fyrsta leik gegn UMFG á laugardaginn. Friðrik segir að sínir menn séu tilbúnir í hörkuleik þar sem markmiðið sé að sækja tvö mikilvæg stig í jafnri og spennandi deild.

NJARÐVÍK-KEFLAVÍK
Leikurinn fer fram á mánudaginn 27. okt í Njarðvík og þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikilvægur þessi leikur er fyrir liðin og ekki síður fyrir stuðningsmenn liðanna. Í áraraðir hafa þessi lið borið af öðrum og nær einokað Íslandsmeistaratitilinn síðan árið 1981, en síðan þá hafa önnur lið einungis unnið 5 sinnum!
Viðureignir liðanna hafa yfirleitt boðið upp á taumlausa skemmtun og spennu og er ekki óvarlegt að gefa sér að Íþróttamiðstöðin í Njarðvík eigi eftir að leika á reiðiskjálfi á mánudagskvöld!

1. deild kvenna
Á laugardaginn fer fram 4. umferð 1. deildar kvenna í Körfuknattleik og verða þar margir spennandi leikir.
Keflavík fær ÍS í heimsókn en liðin eru jöfn að stigum þar sem þau hafa bæði unnið tvo leiki og tapað einum það sem af er deild. Keflavík tapaði fyrir KR í síðustu umferð þar sem þær áttu slakan leik en þær verða sjálfsagt komnar yfir þau vonbrigði og taka á móti Stúdínum af fullum krafti. Leikurinn hefst kl. 17:15.
Grindavík sækir ÍR heim í leik sem ætti að verða athyglisverður þar sem ÍR hefur tapað síðustu tveimur leikjum gegn hinum Suðurnesjaliðunum. Veiki hlekkurinn í liði Grindavíkur er skortur á hávöxnum leikmönnum sem kemur sér illa á móti liði eins og ÍR sem hefur sterka leikmenn innanborðs sem taka mikið af fráköstum, sérstaklega Eplunus Brooks, sem er mjög sterk undir körfunni. Baráttan og vörnin hefur hins vegar verið góð hjá Grindavík í síðustu tveimur leikjum þannig að þær eru til alls líklegar.
Að lokum mætir Njarðvík KR-stúlkum á útivelli. Njarðvík hefur spilað vel á köflum í haust og mæta eflaust reiðubúnar til leiks en KR hefur átt misgóðu gengi að fagna í upphafi deildar. Eftir að hafa misst lykilmenn úr liðinu fyrir leiktíðina töpuðu þær fyrstu tveimur leikjunum en komu svo sterkar inn gegn Keflavík þar sem þær lögðu meistarana að velli. Þannig má segja að erfitt sé að spá fyrir um úrslit en þó má lofa hörkuleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024