Spekingarnir spá: Hafliði og Þorsteinn
Víkurfréttir fengu knattspyrnusérfræðingana Þorstein Gunnarsson hjá Sýn og Hafliða Breiðfjörð hjá fotbolti.net til þess að spá í spilin fyrir viðureign Keflavíkur og KR í bikarúrslitum sem fram fara á Laugardalsvelli kl. 14:00 á morgun.
Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net
Hverjir telur þú að verði bikarmeistarar og af hverju?
Keflavík. Nokkrir af strákunum í Keflavíkurliðinu eru búnir að ganga í gegnum það áður að spila úrslitaleik í bikarnum og vinna og sú reynsla mun vega þungt á laugardaginn.
Hvað má lesta útúr viðureignum þessara liða í sumar?
Þær viðureignir skipta engu þegar út í svona úrslitaleik er komið. Þetta er bara einn leikur sem menn einbeita sér af og hugsa ekkert um hvernig hefur gengið í fyrri leikjum. KR-ingar hafa snúið gengi sínu við með því að einbeita sér meira að varnarleiknum og frammi hefur Björgólfur Takefusa verið stórhættulegur. En Keflvíkingar hafa í allt sumar spilað skemmtilegan sóknarbolta og ég hef enga trú á öðru en þeir haldi því áfram og bjóði upp á skemmtun í Laugardalnum.
Þorsteinn Gunnarsson, SÝN
Hverjir telur þú að verði bikarmeistarar og af hverju?
Það er rökrétt að spá KR sigri miðað við gengi liðanna upp á síðkastið. Keflavík hefur ekki unnið leik síðan 20. ágúst, eða síðan Hólmar Örn Rúnarsson hvarf á braut til Danmerkur. KR hefur ekki tapað leik síðan 17. júlí og hirti annað sætið í deildinni. En í bikarnum getur allt gerst og ég hef trú á því að gömul keflvísk seigla eigi eftir að ráða úrslitum. Ég spái því að Keflavík vinni 2-1 í framlengdum leik þar sem bjargvætturinn Þórarinn Kristjánsson skorar sigurmarkið.
Hvað má lesa út úr viðureignum þessara liða í sumar?
Það má búast við opnum og skemmtilegum leik því mikið var skorað í leikjum liðanna í sumar. Keflavík vann 3-0 í fjórðu umferð en svo hrökk KR í gang og liðin gerðu jafntefli í seinni leiknum 2-2. Helsta áhyggjuefni Keflvíkinga er að fylla skarð Hólmars Arnar því sóknarleikurinn hefur ekki verið eins skæður eftir að hann hvarf á braut. Þá þurfa Suðurnesjamenn að hafa góðar gætur á Björgólfi Takaefusa. Þetta verður mun erfiðari bikarúrslitaleikur fyrir Keflavík en gegn KA fyrir tveimur árum en þá upplifðu Suðurnesjamenn hversu gaman er að vinna bikarinn og þeir vilja að sjálfsögðu endurtaka
leikinn. Það er ekkert leiðinlegra en að tapa bikarúrslitaleik því enginn man eftir tapliðinu!