Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Spáin í körfunni: Keflavíkurstúlkur endurheimta titilinn
Miðvikudagur 10. október 2007 kl. 01:54

Spáin í körfunni: Keflavíkurstúlkur endurheimta titilinn

Suðurnesjaliðunum er spáð óvenju dræmu gengi í karlakörfunni á komandi tímabili, en í árlegri könnun formanna, þjálfara og fyrirliða er Grindvíkingum spáð bestu gengi eða þriðja sæti. Í humátt þar á eftir koma Njarðvíkingar í fjórða og Keflvíkingar í því fimmta. Meisturum síðasta árs, KR, er spáð titlinum, en Snæfellingum öðru sæti.


Í kvennakörfunni eru það Keflvíkingar sem þykja sigurstranglegastar, enda hafa þær leikið geysivel á undirbúningstímabilinu og þegar unnið tvo titla, Powerade-bikarinn og Meistarakeppni KKÍ.
Þær fengu nær fullt hús stiga en meistarar Hauka koma þar á eftir og svo Valur. Grindavík er svo spáð fjórða sætinu.


Þessar spár eru að sjálfsögðu einungis til gamans gerðar, en þær sýna vel hvernig innanbúðarfólki finnst landið liggja í þessum efnum. Keflavíkurstúlkur eru vissulega sigurstranglegar. Þær hafa misst sterka leikmenn frá fyrra ári, en hafa einnig fengið aðra. Önnur lið hafa ekki náð að vinna upp þá leikmenn sem þau misstu líkt og Haukar sem misstu m.a. Helenu Sverrisdóttur, og Grindavík sem missti Hildi Sigurðardóttur aftur heim til KR.


Í karlaflokki er erfitt að spá þó meistararnir hafi fengið nokkra sterka leikmenn til sín, því öll liðin í efstu fimm sætunum gætu unnið hvern sem er á góðum degi. Grindavík styrkti sig fyrir tímabilið, en Njarðvíkingar eru með gjörbreytt lið frá fyrra ári og erfitt að spa fyrir um gengi þeirra. Það sama má segja um Keflavík, sem eru nú með þrjá erlenda leikmann innan sinna raða, en þeir gætu komið öðrum liðum í opna skjöldu í upphafi móts. Þó Hraðlestin hafi ekki sýnt sitt rétta andlit undanfarin misseri, skal enginn voga sér að vanmeta þá.


Smellið hér til að sjá spána í heilu lagi á vef KKÍ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024