Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Spáð í spilin fyrir stórleik kvöldsins í Toyotahöllinni
Föstudagur 26. apríl 2013 kl. 12:02

Spáð í spilin fyrir stórleik kvöldsins í Toyotahöllinni

Heimasíða körfuknattleiksdeildar Keflavíkur fékk nokkra körfuboltaáhugamenn til að spá fyrir úrslitin í þriðja leik Keflavíkur og KR sem fram fer í kvöld kl. 19.15 í Toyotahöllinni. Hér að neðan má sjá útkomuna úr kristalskúlum manna:

Ásgeir Garðarsson, nemi og „trendsetter“: Keflavíkurstúlkur hætta öllu rugli og valta yfir Vesturbæjarsnobbið með 80-69 sigri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jón Björn Ólafsson, körfuboltasérfræðingur og besti veislustjóri landsins: KR hefur enn ekki tekist að vinna leik í Toyota-höllinni þetta tímabilið. Verður þetta fyrsti sigurinn þeirra eða er Keflavík búið að stoppa í þessi heimavallargöt sem Valskonur smeygðu sér í gegnum í undanúrslitum?
Það verður fróðlegt að sjá hvort Birna Valgarðsdóttir verði búin að ná heilsu en hún spilaði sárlasin í öðrum leik í DHL Höllinni. Við þurfum ekkert að fjölyrða um hversu mikilvæg reynsluboltinn úr Skagafirði er í liði Keflavíkur. Keflvíkingar eru búnir að sýna fram á að KR lendir í vandræðum gegn pressuvörninni þeirra svo það ætti enginn að þurfa að taka inn hjartasprengitöflur af undrun ef Keflvíkingar mæta hátt upp á völlinn með læti og freista þess að koma KR-ingum í vandræði. Að sama skapi verður McCallum erfið viðureignar, hún er langbesti leikmaður deildarinnar og KR-ingar stórhættulegir þegar leikmenn eins og Sigrún Sjöfn og Helga Einars taka af skarið með henni. Það er enginn eyland, ekki McCallum heldur þó svo hún geti troðið. Við erum að tala um lykilleik í kvöld, ómögulegt fyrir Keflavík að fara 1-2 undir í DHL Höllina og að sama skapi ómögulegt fyrir KR að eiga það á hættu að láta Keflavík fagna titlinum í DHL Höllinni. Konur munu því selja sig dýrt í höll Ævars Ingólfssonar kennda við Toyota og ég spái því að besti kvennaleikur ársins fari þarna fram í kvöld

Davíð Páll Viðarsson, stjórnarmaður í Njarðvík og Bransari:  Ég spái Keflavik sigri í þessum leik. Mér finnst vera meiri gæði innan þeirra herbúða. KR er með frábæran bandarískan leikmann Shannon McCallum sem getur klárað leiki á sitt einsdæmi, en ég held að Sigurður Ingimundarson sé með svör við hennar leik. Hefðin, gæðin og hrokinn fer langt í svona einvigi. Ég spái Keflavik 15+ stiga sigri og þær klára þetta einvigi 3-1 í DHL Höllini.

Steinar Kaldal, fyrirsæta og fyrrum leikmaður KR: Leikurinn í kvöld verður meira spennandi en síðustu tveir leikir liðanna. Skotin duttu hjá KR-ingum í síðasta leik og það létti pressunni af McCallum. Keflvíkingar munu halda áfram að spila stífa vörn á hana, KR-ingar munu kveinka sér en Sigurður mun hlæja að því. En, sá hlær best sem síðast hlær. Leikurinn fer í framlengingu og KR stelur sigri á útivelli 81-83.

Auður Jónsdóttir, fyrrum leikmaður Njarðvíkur, eiginkona Sverris Þórs Sverrissonar og besta vinkona Pöllu hans Palla: Ég held að Keflavík taki þetta eftir mikinn baráttuleik. Býst við keflavíkurstelpum mjög ákveðum eftir að hafa tapað í síðasta leik.

Valdimar Guðmundsson, stórsöngvari og fyrrum yngriflokkaleikmaður Keflavíkur: Ég held að Keflavík muni taka þennan leik frekar sannfærandi. Ég er nokkuð viss um að leikurinn muni fara 81-62.