Söxuðu á forskot Stjörnunnar
Keflavíkurkonur höfðu frækinn 4-1 sigur á Stjörnunni í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu í gær. Nína Ósk Kristinsdóttir gerði tvö mörk í leiknum fyrir Keflavík og er nú næst markahæsti leikmaður deildarinnar með 20 mörk.
Nína gerði fyrsta mark leiksins á 14. mínútu og kom Keflavík í 1-0. Þannig stóðu leikar í hálfleik en í þeim síðari tóku Keflavíkurkonur öll völd á vellinum og gerðu þrjú mörk á skömmum tíma.
Nína gerði sitt annað mark á 50. mínútu og kom Keflavík í 2-0 en Karen Sævarsdóttir bætti við þriðja markinu á 72. mínútu. Það var svo Linda O´Donnell sem kom Keflavík í 4-0 á 76. mínútu leiksins og sigurinn í höfn.
Björk Gunnarsdóttir minnkaði muninn í 4-1 á 94 mínútu en eftir sigurinn hafa Keflavíkurkonur minnkað mun Stjörnunnar niður í 3 stig sem áður var 6 stig.
Staðan í deildinni
VF-myndir/ Jón Örvar Arason