Sóttvarnarreglur ekki virtar á íþróttakappleikjum
Ábendingum hefur verið komið á framfæri við yfirvöld vegna brota á sóttvarnareglum sem hafa verið sérstaklega áberandi í úrslitakeppni Domino's og 1. deilda körfuboltans. Það er kannski skiljanlegt enda mikið í húfi og kapp ber oft á tíðum skynsemina ofurliði en stjórn Körfuknattleikssambands Íslands hefur áhyggjur af þessu ástandi.
KSÍ hefur sent póst á forsvarsmenn félaga sem eru í þessari stöðu, þ.e. að leika í úrslitakeppnum KKÍ. Í póstinum sem formaður KKÍ skrifar undir segir að það valdi áhyggjum hve erfiðlega hafi gengið að framfylgja þeim leiðbeiningum sem eru í gildi á kappleikjum. Ábendingum um brot á sóttvörnum hafi verið komið á framfæri við KKÍ og ÍSÍ þar sem hvatt er til úrbóta.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, bendir á að sambandið hafi fá úrræði til að taka á þeim sem standa ekki nægilega vel að sóttvörnum, þeirra helsta úrræði væri að banna áhorfendur á leikjum í úrslitakeppni Domino's og 1. deilda. Önnur úrræði séu í höndum yfirvalda ef ekki tekst betur til við að viðhalda þeim reglum sem í gildi eru – og þangað vill KKÍ ekki fara.
Í aðsendri yfirlýsingu Körfuknattleikssambandsins segir m.a.:
„Það hefur áður verið ítrekað hversu mikilvægt það er að vel takist til, svo við getum klárað úrslitakeppnir okkar með áhorfendum. Okkur er vel kunnugt hversu mikil vinna er á bak við það er að standast þessar áskoranir sem sóttvarnarumhverfinu fylgir. Þrátt fyrir það er mikilvægt að muna að ábyrgð okkar í körfuboltahreyfingunni er mikil. Þær leiðbeiningar sem KKÍ hafa sett fram í samstarfi við HSÍ, eru unnar svo hægt sé að keppa og svo hægt sé að taka við áhorfendum á kappleiki. Íþróttahreyfingin hefur lagt í það gríðarmikla vinnu og ótalmargar fórnir til að hægt sé að komast á þann stað þar sem við erum í dag. Við verðum því að standast þessar flóknu áskoranir sem fyrir okkur liggja.
Það er ekki óalgengt að kappið beri fegurðina ofurliði á stundum, sér í lagi í úrslitakeppni. Við viljum því minna á þær reglur sem gilda um áhorfendur, og biðjum ykkur að skerpa á framkvæmd sóttvarna með ykkar fólki. Reglur varðandi áhorfendur eru eftirfarandi:
- Allir gestir séu sitjandi og ekki andspænis hver öðrum.
- Allir gestir séu skráðir í númeruð sæti, a.m.k. nafn, kennitala og símanúmer. Skráin skal varðveitt í tvær vikur og eytt að þeim tíma liðnum.
- Allir gestir noti andlitsgrímu nema þegar neytt er drykkjar- eða neysluvöru.
- Tryggt sé að fjarlægð milli ótengdra gesta sé a.m.k. einn metri á alla kanta.
- Áfengisveitingar séu ekki heimilar.
- Komið verði eins og kostur er í veg fyrir frekari hópamyndun fyrir viðburð, í hléi og eftir viðburð. Skipuleggjendum viðburða er skylt að tryggja þegar gestir eru ekki í sætum, svo sem fyrir og eftir viðburð og í hléi, að ekki komi fleiri saman en 50 manns og að virt sé 2 metra nálægðartakmörkun milli ótengdra aðila. Þrátt fyrir að heimilt sé að hafa hlé á viðburðum skal biðja gesti um að halda kyrru fyrir í sætum sínum. Þá er sala eða boð um veitingar ekki heimil í hléi.
- Umgengni í hverju hólfi skal vera í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnalæknis þar að lútandi svo koma megi í veg fyrir blöndun milli hólfa.
Vitað er að ásókn stuðningsmanna í að mæta á leiki hefur verið að aukast með hækkandi sól, og við fögnum því. Það er því mikilvægt að allir, hvort sem það erum við sem förum fyrir hreyfingunni, þjálfarar, leikmenn og stuðningsmenn félaganna, vinni saman að því að fylgja þeim reglum sem eru í gildi svo hægt verði að spila áfram með áhorfendur á leikjum, allt til enda tímabilsins.“
Það er því ljóst að mikið er í húfi, bæði fyrir áhorfendur og stuðningsmenn félaganna sem og félögin sjálf, og því ættu áhorfendur á kappleikjum að leggja sig fram við að fara eftir leiðbeiningum sóttvarnayfirvalda – það yrði ömurlegt fyrir alla að þurfa að leika til úrslita fyrir tómum áhorfendastúkum.