Sól og blíða í Lilleström
Að loknum morgunmat fékk allur hópurinn smá tíma til þess að spóka sig um í miðbæ Lilleström í blíðskaparviðri, eða um 25 stiga hita og dúnalogni. Þjálfararnir fundu sér afdrep á ítölsku veitingahúsi og fóru yfir tvo leiki hjá Lilleström frá því fyrr á þessu tímabili.
Um kl. 14:30 var svo haldið á Arasen Stadium þar sem liðið sótti rúmlega klukkustundar langa æfingu í steikjandi hitanum og voru þær ófáar vatnsflöskurnar sem hurfu ofan í mannskapinn.
Fréttahaukurinn Guðni Ölversson var vitaskuld mættur á svæðið til þess að kasta kveðju á Íslendingana og sagði frá því helsta sem væri að gera og sjá í Lilleström en Guðni er búsettur skammt utan við bæinn.
Að æfingu lokinni var svo haldið upp á Thon Hotel Arena og mannskapurinn fylgist nú með viðureign Argentínu og Þýskalands í Heimsmeistarakeppninni og þegar þetta er ritað er hálfleikur í þeirri viðureign. Kl. 19 að staðartíma er svo áætlað að hópurinn fari allur saman í mat.
Þangað til næst...
VF-myndir/ [email protected]
Mynd 1: Jónas og Guðmundur á æfingunni í dag
Mynd 2: Arasen Stadion – heimaleikvangur Lilleström