Sögulegt hjá Keflavíkurkonum í körfunni. Unnu alla titla í ár!
Í fyrsta sinn í núverandi keppnisfyrirkomulagi er eitt félag handhafi allra Íslandsmeistaratitla í körfubolta kvenna en félagið sem um ræðir er Keflavík, Íslandsmeistarar frá meistaraflokki kvenna niður í minnibolta stúlkna, glæsilegur árangur sem náðist í gær þegar Keflavík lagði Njarðvík í stúlknaflokki í úrslitaviðureign Íslandsmótsins.
Fjórum sinnum hefur það gerst að sama félag vinni alla Íslandsmeistaratitla kvenna sem eru í boði, þ.e. þegar keppt er um fleiri en einn titil.
1969 og 1971 vann Þór Akureyri titilinn í meistaraflokki kvenna og 2. flokki kvenna.
1982 vann KR meistaraflokk, 2. flokk og 3. flokk og Keflavík afrekaði svo það sama 1988.
Árnagur Keflavíkurkvenna í vetur á Íslandsmótinu:
Keflavík Íslandsmeistarar í:
- Iceland Express deild kvenna eftir 3-0 sigur á Njarðvík
- Unglingaflokki kvenna eftir 72-70 sigur á Snæfell
- Stúlknaflokki eftir 64-43 sigur gegn Njarðvík
- 10. flokki kvenna eftir 71-31 sigur gegn Grindavík
- 9. flokki kvenna eftir 65-39 sigur á Njarðvík
- 8. flokki kvenna eftir sigur á fjölliðamóti
- 7. flokki kvenna eftir sigur á fjölliðamóti
- Minnibolta kvenna eftir sigur á fjölliðamóti
Magnaður árangur hjá Keflvíkingum þessa leiktíðina og var Gunnar Jóhannsson formaður Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur að vonum kátur með árangurinn en Karfan.is náði tali af Gunnari eftir sigur stúlknaflokks í dag sem innsiglaði þennan sögulega árangur félagsins.
frétt af karfan.is