Sofa vel á Flughóteli fyrir leik
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Norður-Írum í undankeppni HM á Laugardalsvelli í dag. Íslenska liðið er í harðri baráttu við Frakka um efsta sæti riðilsins og er þessi leikur gríðarlega mikilvægur í þeirri baráttu. Þessar þjóðir mættust ytra á síðasta ári og unnu Íslendingar þá nauman sigur, 0 - 1.
Til að mæta sem best undirbúnar og afslappaðar í leikinn dvöldu stelpurnar á Flughóteli en algengt er að íþróttalið gisti á hótelum nóttina fyrir mikilvæga leiki.
„Við tryggjum þeim sigur eða jafntefli í hverjum leik. Það er innifalið í gistingunni,“ segir Ólafur Þórhallsson, aðstoðarhótelstjóri Flughótels. Það skal þvi engan undra að kvennalandsliðið sé fastagestur á hótelinu sem býður upp á góða aðstöðu fyrir undirbúning liðsins þar sem það getur verið út af fyrir sig með fundaraðstöðu, máltíðir, sjúkraherbergi og annað.
Stelpurnar mæta því vel afslappaðar og yfirvegaðar í leikinn í dag eftir góðan nætursvefn á Flughóteli.