Snorri úr Keflavík í Njarðvík
Snorri Hrafnkelsson hefur samið við Körfuknattleiksdeild UMFN til 2ja ára og mun leika með Njarðvík í Domino’s deildinni á komandi vetri. Snorri er 19 ára, 200 cm miðherji sem er alinn upp í Breiðablik en lék með Keflavík á síðasta tímabili. Snorri og Ágúst Orrason léku einmitt saman upp alla yngri flokka Breiðabliks og sameinast að nýju í UMFN.
Leikmannahópur UMFN er því skrefinu nær því að skýrast fyrir komandi vetur. Fram kemur á heimasíðu UMFN að greint verði nánar frá þá samningum sem náðst hafa við núverandi leikmenn félagsins. Ljóst er að flestallir leikmenn liðsins verða áfram, og að auki hafa bæst við þeir Halldór Örn Halldórsson og Snorri Hrafnkelsson sem eru báðir 200 cm og munu styrkja liðið í baráttunni í teignum.
Marcus Van verður ekki áfram hjá UMFN þar sem einungis má leika með einn erlendan leikmann á næsta tímabili og þegar hefur verið gengið frá samningum við Nigel Moore um áframhaldandi samstarf eins og heimasíðan greindi frá nýlega.