Snæfellingar í bílstjórasætinu eftir sigur á Njarðvíkingum
Snæfell hefur tekið 1-0 forystu í einvíginu gegn Njarðvík í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfuknattleik. Liðin mættust í sínum fyrsta leik í Ljónagryfjunni í dag þar sem Snæfell vann verðskuldaðan 84-71 sigur á heimamönnum. Justin Shouse gerði 20 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 5 fráköst í leiknum. Damon Bailey var atkvæðamestur í liði Njarðvíkinga með 29 stig og 10 fráköst.
Fyrirfram var talið að í fjarveru miðherjans Friðriks Stefánssonar myndu Njarðvíkingar eiga í vandræðum í teigbaráttunni en annað kom á daginn, heimamenn lentu í basli með bakverði Snæfellinga en þeir Justin og Slobodan gerðu samtals 39 stig í leiknum.
Jóhann Árni Ólafsson lék í treyju númer 4 í dag en það mun vera númer Friðriks Stefánssonar en Jóhann lék upp yngri flokka í treyjunni og tjáði Víkurfréttum eftir leik að það þýddi lítið að láta jafn gott númer falla til hliðar þó Friðrik yrði ekki meira með. Jóhann fékk það vandasama verkefni að hafa gætur á Hlyni Bæringssyni sem hann gerði með glæsibrag en Hlynur gerði 7 stig og tók 7 fráköst í dag og hefur oft látið meira að sér kveða.
Gestirnir úr Stykkishólmi voru hinsvegar í bílstjórasætinu í dag. Snæfellingar skiptu oft og tíðum um varnarafbrigði og kom það Njarðvíkingum oft úr jafnvægi sem hittu illa fyrir utan þriggja stiga línuna í dag. Settu aðeins niður 6 af 25 þriggja stiga skotum sínum.
Snæfell leiddi 25-26 eftir fyrsta leikhluta þar sem Damon Bailey fór mikinn hjá heimamönnum með 13 stig og Slobodan Subasic nýtti vel opnu skotin sín og var með 11 stig hjá Snæfell eftir fyrsta leikhluta.
Fljótlega í öðrum leikhluta sigu Snæfellingar fram úr og náðu 10 stiga forskoti 34-44 en Damon Bailey skellti niður þrist og staðan því 37-44 í hálfleik og Bailey kominn með 21 stig og 9 fráköst en aðrir Njarðvíkingar voru ekki að láta finna fyrir sér í sókninni. Slobodan var með 14 stig hjá Snæfell í hálfleik.
Hart var barist í leiknum og oft lát við að upp úr syði en alls voru 20 villur dæmdar í fyrri hálfleik einum og 19 í þeim síðari sem er allt of mikið. Bæði voru liðin að fá á sig dæmd óþarfa villur og á köflum voru dómarar leiksins einum of bráðir á flautunni.
Snæfell virtist ætla að stinga af í þriðja leikhluta en heimamenn komust alltaf aftur inn í leikinn og náðu að minnka muninn í þrjú stig, 54-57 þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta en gestirnir úr Stykkishólmi gerðu fjögur síðustu stig leikhlutans og staðan því 54-61 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Það sást langar leiðir að Njarðvíkingar söknuðu sárt Brentons Birmingham sem var ekki að finna fjölina í dag og brenndi af öllum sjö þriggja stiga tilraunum sínum í leiknum. Á sama tíma voru þeir Justin og Jón Ólafur að setja niður stórar körfur fyrir Hólmara.
Í upphafi fjórða leikhluta náðu Snæfellingar 10 stiga forskot og héldu þessum mun allt til leiksloka og gerðu það af mikilli yfirvegun og með sterkum varnarleik.
Liðin mætast í sínum öðrum leik í Stykkishólmi á mánudag kl. 19:15 þar sem Snæfellingar geta með sigri tryggt sig áfram inn í undanúrslitin.
VF-Mynd/ [email protected] – Damon Bailey var langbesti maður Njarðvíkinga í dag.