Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Snæfell stöðvaði sigurgöngu Grindavíkur
Föstudagur 12. nóvember 2010 kl. 09:17

Snæfell stöðvaði sigurgöngu Grindavíkur


Grindavík tapaði í gær sínum fyrsta leik á yfirstandandi keppnistímabili í IEX-deild karla í körfuknattleik. Snæfell stöðvaði sigurgöngu þeirra er liðin mættust í Hólminum.
Leikurinn var hnífjafn eftir fyrsta leikhluta, 18-18. Grindvíkingar byrjuðu sterkir í öðrum leikhluta og komust í 24-20. Snæfellingar spýttu þá í lófana, tóku góðan leikkafla og skoruðu 10 stig í röð án þess að Grindvíkingar næðu að svara.  Snæfell hafði yfir í hálfleik, 39-32.

Grindvíkingar virtust hafa náð einbeitingunni í upphafi síðari hálfleiks og náðu að minnka muninn í 50-49. Snæfellingar hrukku um síðir aftur í gang og í lok fjórðungsins voru þeir komnir með nokkuð þægilega stöðu, 65-51.

Allt virtust stefna í stórsigur hjá Hólmurum sem voru komnir með góða forystu um miðjan fjórða leikhlutann, 76-58. Þá urðu kaflaskipti í leiknum þegar Grindvíkingar fóru að spila vörn og raða niður körfum.  Þeir voru hins vegar búnir að missa Snæfellinga of langt frá sér. Þrátt fyrir að feikna öflugan leik Grindvíkinga í lokin náðu heimamenn að halda haus og lokatölur urðu 79-71.

Hjá Grindavík var Páll Axel stigahæstur með 20 og 7 fráköst. Ryan Pettinella var með 14 stig og 11 fráköst.

Mynd - Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur í liði Grindvíkinga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024