Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 19. mars 2004 kl. 19:38

Snæfell sigrar Njarðvík í Hólminum!

Snæfellingar báru sigurorð af Njarðvík í kvöld, 97-87. Leikurinn var sá fyrsti í undanúrslitarimmu liðanna, en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í úrslitin.

Leikurinn í kvöld var gríðarlega skemmtilegur og spennandi þar sem frammistaða tveggja manna stóð uppúr. Brenton Birmingham skoraði 45 stig fyrir Njarðvík og bar sóknarleik liðsins á herðum sér á meðan Hlynur Bæringsson fór hamförum fyrir Snæfell og tók 24 fráköst ásamt því að skora 19 stig.

Njarðvík byrjaði vel og komst í 0-5, en heimamenn komust fljótt inn í leikinn og liðin skiptust á að hafa forystu. Staðan fyrir annan leikhluta var 22-19, en gangurinn var sá sami fram að leikhléi. Hvorugt liðið náði taki á leiknum og var stigamunurinn aldrei mikill.
Staðan í hálfleik var 37-37 og þegar flautað var til leiks á ný var augljóst að Friðrik Ragnarsson hafði messað duglega yfir sínum mönnum. Brenton fór fyrir góðum kafla sinna manna þar sem þeir náðu 7 stiga forystu, 39-46, og virtust ætla að sigla framúr.
Snæfellingar voru þó ekki á þeim buxunum og héngu í Njarðvíkingunum. Brenton var hreinlega óstöðvandi á þessum kafla og skoraði 18 stig í 3. leikhluta en liðsfélagar hans áttu alls ekki eins góðan leik og má segja að ekkert hafa gerst í sóknarleiknum án þess að Brenton tæki af skarið.
Fyrir síðasta leikhlutann hafði Njarðvík enn forystuna, 67-70, en heimamenn voru fljótir að breyta því. Þeir skoruðu fyrstu 4 stigin og náðu frumkvæðinu sem þeir létu ekki af hendi það sem eftir lifði leiks. Snæfellingar spiluðu glimrandi bolta þar sem Corey Dickerson, Sigurður Þorvaldsson og Hafþór Ingi Gunnarsson sáu um sóknarleikin á meðan Hlynur var einráður undir körfunni í sókn og vörn.

Sigur Snæfellinga var öruggur undir lokin þar sem ekkert gekk í sóknarleik Njarðvíkinga og er ekki hægt að neita því að betra liðið fór með sigur af hólmi.
Friðrik Ragnarsson var hundfúll með frammistöðu sinna manna í kvöld. „Brenton var frábær, en hinir gátu bara ekki neitt! Ég er sérstaklega óánægður með vörnina þar sem strákarnir leyfðu þeim að skora að vild, og svo vorum við jarðaðir undir körfunni. Nú verðum við einfaldlega að vinna þá næst og þá verða fleiri að láta til sín taka því þótt Brenton sé góður getur hann þetta ekki einn.

Stigahæstir:
Snæfell: Dickerson 23, Dotson 22, Sigurður Þorvaldsson 21, Hafþór Gunnarsson 12.
Njarðvík: Brenton Birmingham 45, Brandon Woudstra 16, Friðrik Stefánsson 10.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024