Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Snæfell sigraði Grindavík í Röstinni
Sunnudagur 2. desember 2007 kl. 22:53

Snæfell sigraði Grindavík í Röstinni

Snæfell vann góðan útisigur á Grindavík í Iceland Express deild karla í Röstinni í kvöld. Grindvíkingar virkuðu andlausir og ekki tilbúnir í leikinn og því var sigur Snæfells verðskuldaður.

 

Snæfellingar komu dýrvitlausir til leiks og eftir 2 ½ mínútu var staðan 2-11, Snæfell í vil og Grindavík tók leikhlé. Vörnin var ekki nægilega góð hjá Grindavík og sóknarleikurinn var stirður. Hlynur Bærings leiddi sína menn áfram en Grindavík komst þó fljótlega í takt við leikinn og með góðum endasprett þá náði Grindavík að minnka muninn. Adama Darboe setti niður þriggja stiga flautukörfu og staðan eftir 1. Leikhluta var því 23-28

Snæfellingum í vil.

 

Það var allt annað að sjá til Grindavíkur liðsins í byrjun annars leikhluta. Páll Axel byrjaði á því að setja glæsilega þriggja stiga körfu og liðið fylgdi með í kjölfarið og spenna var hlaupin í leikinn. Eftir þriggja mínútna leik í öðrum leikhluta tók Snæfell leikhlé í stöðunni 32-34. Þorleifur Ólafsson átti stórbrotna troðslu rétt eftir leikhléið og átti hann góða spretti í öðrum leikhluta. Leikurinn jafnaðist eftir þetta en Grindavík komst í fyrsta skiptið yfir í leiknum í stöðunni 38-36 þegar fjórðungurinn var hálfnaður. Liðin skiptust á að leiða en þegar flautað var til leikhlés var staðan jöfn 51-51.

 

Flestir hefðu líklega búist við að seinni hálfleikur yrði gríðarlega spennandi og skemmtilegur en annað kom í ljós. Varnarleikurinn var í fyrirrúmi og leikurinn var mikið stopp vegna brota leikmanna. Adama Darboe lenti í villuvandræðum og var kominn með fjórar villur þegar leikhlutinn var tæplega hálfnaður Snæfellingar bitu hins vegar frá sér um miðbik þriðja fjórðungs og náðu 9 stiga forskoti sem þeir héldu til loka þriðja

fjórðungs og voru vel af forystunni komnir.

 

Í fjórða leikhluta var það sama upp á teningum og í þeim þriðja og leyfðu Snæfellingar Grindvíkingum aldrei að komast inn í leikinn. Liðunum gekk erfiðlega að skora og mörg stig komu af vítalínunni. Það sást hins vegar fljótlega í fjórða leikhluta hvort liðið ætlaði sér sigur og voru Snæfellingar ákveðnari á öllum sviðum. Grindvíkingar reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn en leikur þeirra strandaði á afar slæmri skotnýtingu á síðustu mínútnum. Þegar lokaflautan gall í Grindavík í kvöld hafði Snæfell 13 stiga sigur, 82-95.

 

Grindvíkingar geta verið óánægðir með sína spilamennsku enda var fátt sem gekk upp hjá liðinu í kvöld. Lykilmenn voru ekki að sýna sitt rétta andlit og því fór sem fór. Snæfell sýndi styrk sinn eftir að hafa verið afar ósannfærandi það sem er af tímabili og baráttan og ákveðnin skein úr hverju andliti.

 

Þorleifur Ólafsson var atkvæðamestur í liði Grindavík með 21 stig og Jonathan Griffin var með 17. Hjá Snæfell var Hlynur Bæringsson bestur með 27 stig og 13 fráköst. Sigurður Þorvaldsson og Justin Shouse voru með 23 stig hver.

 

Grindvíkingar eiga erfiðan leik fyrir höndum þegar þeir kíkja í heimsókn til KR-inga næstkomandi laugardag. Nokkuð ljóst er að Grindvíkingar verða að spila mun betur en í kvöld ætli þeir sér sigur.

 

Tölfræði leiksins

 

Texti: Jón Júlíus Karlsson – [email protected]

Mynd: Jón Björn Ólafsson – [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024