Snæfell nýtti vel einbeitingarleysi heimamanna
Blóðga þurfti Hlyn Bæringsson til þess að koma bikarmeisturum Snæfells á bragðið í Röstinni í kvöld. Þegar skammt var til leiksloka fékk Hlynur högg á andlitið svo blæddi úr nefi hans. Hlynur hélt til aðhlynningar og kom svo aftur vígreifur og kláraði leikinn með sínum mönnum. Snæfell landaði naumum 94-97 sigri í Röstinni og leiðir því einvígið 1-0 gegn Grindavík í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar. Þétt vörn gestanna og hálfkák heimamanna á endasprettinum réði úrslitum að þessu sinni.
Bandaríkjamaðurinn Jamaal Williams var stigahæstur hjá Grindavík í kvöld með 32 stig og 6 fráköst og lét mikið að sér kveða í teignum. Þrír voru þó jafnir og stigahæstir hjá gestunum með 15 stig en það voru þeir Hlynur Bæringsson, Sigurður Þorvaldsson og Justin Shouse.
Shouse sagði eftir leik að magnað hefði verið að ná sigri í Grindavík. ,,Þegar þú nær ljótum sigri eins og við gerðum í kvöld þá veistu að þú ert með gott lið í höndunum. Sjálfur var ég að leika hrikalega illa en það var magnað að ná sigri hér en Grindavík er lið sem getur hæglega gert 115 stig í leik svo við verðum að vera klárir í hvað sem er,” sagði Shouse og viðurkenndi að það væri gott fyrir sjálfstraustið að fara 1-0 yfir heim í Hólminn.
Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur var að vonum ekki sáttur við niðurstöðu leiksins. ,,Þetta er ekki í fyrsta skiptið í vetur sem svona nokkuð gerist hjá okkur. Við erum að spila á köflum ágætlega og tekst að byggja upp forskot en svo klúðrum við því á einhvern óskiljanlegan hátt. Þetta var bara alveg út í hött. Þetta var bara einbeitingarleysi, við vorum óskynsamir í sókninni og sættum okkur við lélegt skotaval,” sagði Friðrik en taldi að sínir menn ættu mikið inni. ,,Við getum spilað betur og við förum bara í Stykkishólm á fimmtudag og jöfnum þessa seríu.”
Heimamenn voru líflegir í upphafi leiks og komust í 18-12 þegar gestirnir rönkuðu við sér og breyttu stöðunni í 23-26 eftir fyrsta leikhluta sem lofaði góðu fyrir framhaldið.
Jamaal Williams var að reynast Snæfell erfiður á blokkinni og skoraði nokkuð oft með því að ýta Hlyn Bæringssyni upp að körfunni og leggja svo boltann yfir hann. Sjaldnast var mikill munur á liðunum sem léku oft góðar sóknir á meðan vörninni blæddi fyrir vikið.
Staðan í leikhléi var 52-55 fyrir Snæfell sem höfðu algera yfirburði í frákastabaráttunni og tóku 22 fráköst gegn 5 frá Grindavík í fyrri hálfleik.
Bikarmeistararnir komust í 56-60 þegar Grindvíkingar tóku áhlaup og gerðu átta stig í röð og breyttu leiknum í 64-60 en eftir það var ekki mikið skorað nema nokkrir mikilvægir þristar úr ólíklegustu átt. Daninn Anders Katholm nýtti sér það að vera óvaldaður fyrir utan þriggja stiga línuna og því voru Hólmarar enn inni í leiknum. Heimamenn leiddu svo 75-72 fyrir fjórða leikhluta.
Allt benti til þess að Grindvíkingar ætluðu að stinga af í fjórða leikhluta í stöðunni 83-74 þegar Helgi Jónas setti niður þrist en annað kom á daginn. Þegar nokkrar mínútur voru til leiksloka fékk Hlynur Bæringsson högg á nefið svo úr blæddi og hélt hann til aðhlynningar. Fjarvera Hlyns svo og endurkoma hans hafði auðsjáanlega góð áhrif á gestina sem hófu að saxa á forskot heimamanna.
Þegar staðan var 92-88 fyrir Grindavík settu gestirnir í lás og slæmar ákvarðanir heimamanna í bæði vörn og sókn urðu þeim dýrkeyptar.
Jamaal Williams kom Grindavík í 94-92 með tveimur vítaskotum en í næstu sókn setti Justin Shouse niður gríðarstóra þriggja stiga körfu og kom sínum mönnum í 94-95 og 43 sekúndur til leiksloka.
Grindvíkingar misstu boltann í næstu sókn þegar Adama Darboe ætlaði að gefa boltann inn í teig til Williams sem náði ekki til boltans og því fengu Snæfellingar næstu sókn. Heimamenn brutu á Ingvaldi Magna sem setti bæði vítin sín niður og staðan 94-97. Grindvíkingar áttu einn séns á að ná næla sér í framlengingu en skot Páls Axels geigaði og því fögnuðu Snæfellingar sigri.
Sveiflukenndur fjórði leikhluti þar sem bikarmeistararnir reyndust þrautgóðir á raunastund. Næsti leikur liðanna fer fram í Stykkishólmi á fimmtudag kl. 19:15.
VF-Mynd/ [email protected] – Það var hart barist í Röstinni í kvöld.