Snæfell í úrslit eftir rafmagnaðan leik í Hólminum
Á engan er hallað þegar fullyrt er að Grindavík og Snæfell hafi mæst í besta leik úrslitakeppninnar í Iceland Express deildinni til þessa á mánudagskvöld í Stykkishólmi. Bikarmeistarar Snæfells tryggðu sér sæti í úrslitunum og sendu Grindvíkinga í sumarfrí eftir ótrúlegan 116-114 sigur í Fjárhúsinu eftir framlengdan leik. Fyrir fjórða og síðasta leikhlutann höfðu Grindvíkingar 16 stiga forskot en eins manns æði Sigurðar Þorvaldssonar færði Hólmurum sigurinn í háspennuleik. Þorleifur Ólafsson átti síðasta skot leiksins fyrir utan þriggja stiga línuna sem hefði tryggt Grindavík sigur en skotið geigaði og fögnuðu heimamenn af miklum ákafa í leikslok.
,,Mér fannst við á kafla í fjórða leikhluta gera allt vitlaust sem hægt var að gera vitlaust í vörninni og hleyptum þeim aftur inn í leikinn. Þú verður að spila vel allan leikinn til að klára svona. Við klárum illa og tvívegis í einvíginu missum við niður unninn leik,” sagði Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur í samtali við Víkurfréttir eftir leik í Stykkishólmi.
Þegar 11 sekúndur voru til loka framlengingarinnar áttu Grindvíkingar boltann og Snæfell leiddi 116-114. Svo fór að Þorleifur Ólafsson átti lokaskot leiksins úr erfiðri stöðu en það vildi ekki niður. Hvað lagði Friðrik á ráðin í þessu síðasta leikhléi Grindavíkur á leiktíðinni? ,,Ég ætlaði að fara í þriggja stiga og klára þetta. Boltinn átti að fara á Pál Axel en það opnaðist ekki fyrir okkur. Það er alveg sama, við ætluðum alltaf að skjóta þriggja stiga sama hver það yrði því ég þorði ekki inn í teig. Við hefðum t.d. aldrei fengið dæmda villu þar á þessum tímapunkti,” sagði Friðrik og vonbrigðin leyndu sér ekki í máli hans.
Sigurður Þorvaldsson var án nokkurs vafa besti maður vallarins með 37 stig og 7 fráköst en Adama Darboe átti einnig magnaðan dag með 32 stig, 13 stoðsendingar og 7 fráköst í liði Grindavíkur.
Varnarleikurinn var ekki upp á marga fiska eins og lokatölur leiksins gefa til kynna en Snæfellingar áttu í mesta basli við að halda í við gesti sína lungann úr leiknum. Heimamenn byrjuðu betur og leiddu 29-28 eftir fyrsta leikhluta en Grindvíkingar sjóðhitnuðu í öðrum leikhluta og léku glæsilegan bolta.
Félagarnir Páll Axel, Adama Darboe, Helgi Jónas og Þorleifur keyrðu áfram Grindavíkurleikinn og réðu heimamenn ekkert við hraðann í leiknum. Árni Ásgeirsson náði að svara aðeins fyrir Snæfell með flautukörfu fyrir leikhlé og staðan 49-62 fyrir Grindavík í hálfleik.
Yfirburðir Grindavíkur héldu áfram í þriðja leikhluta og leiddu gestirnir 70-86 að honum loknum. Þegar þrjár mínútur voru svo liðnar af fjórða leikhluta kom Adama Darboe Grindavík í 77-96 með þriggja stiga körfu. Að svo búnu var komið að því að gefa kindunum í Fjárhúsinu og hrúturinn meðal kinda í kvöld, Sigurður Þorvaldsson, setti niður hvern þristinn á fætur öðrum og hver einn og einasti var gígantískur að stærð.
Með ótrúlegu áhlaupi tókst Snæfellingum að minnka muninn í 95-99 með þriggja stiga körfu frá Sigurði en þá voru þrjár og hálf mínúta til leiksloka. Þá var Hlynur Bæringsson einnig ný kominn inn á völlinn eftir að hafa hvílt mest allan fjórða leikhluta.
Allt ætlaði svo um koll að keyra þegar Sigurður var aftur á ferðinni og kom Snæfell í 103-102 með þriggja stiga körfu en hann setti niður 5 af 6 þriggja stiga skotum sínum í kvöld.
Lokaspretturinn var æsispennandi og í stöðunni 106-106 áttu Snæfellingar innkast og 6 sekúndur til leiksloka. Slobodan Subasic fékk dæmt á sig skref og því fengu Grindvíkingar boltann þegar 2 sekúndur voru eftir og tækifæri til að stela sigrinum til baka eftir að hafa hleypt Snæfell inn í leikinn. Boltanum var grýtt hátt inn í teig á Jamaal Williams en hann brenndi af teigskotinu og framlengja varð leikinn.
Framlengingin var ævintýraleg og við hæfi að Sigurður Þorvaldsson opnaði hana með þriggja stiga körfu að hætti hússins. Jamaal Williams gerði sex næstu stig Grindavíkur í teignum og lét Hlyn Bæringsson líta út sem byrjanda í varnarleik. Slobodan Subasic jafnaði leikinn í 112-112 og var staðan 114-114 þegar ein mínúta var eftir af framlengingunni.
Justin Shouse braut sér leið í gegnum Grindavíkurvörnina og skoraði úr teigskotinu þegar 11 sekúndur voru til leiksloka. Grindvíkingar tóku leikhlé þar sem Friðrik lagði á þau ráð að Páll Axel myndi sækja sigur, engin tveggja stiga karfa, bara þristur og sigur og oddaleikur í Grindavík. Það var aðalrétturinn. Þó fóru leikar ekki eins og Friðrik ráðlagði, Páll Axel skaut ekki lokaskotinu heldur var það Þorleifur Ólafsson sem fékk það vandasama hlutverk að taka stærsta skot úrslitakeppninnar til þessa… og það geigaði.
Grindvíkingar fóru illa að ráði sínu og fóru að verja forskot sitt í loka leikhlutanum í stað þess að halda áfram að vera sókndjarfir og halda uppteknum hætti sem hafði skilað þeim 16 stiga forystu eftir þrjá leikhluta. Þó má samt ekki taka það frá bikarmeisturunum að þeir áttu rosalega endurkomu með Sigurð Þorvaldsson í broddi fylkingar.
Adama Darboe sýndi í kvöld að hann er einn af bestu leikstjórnendum deildarinnar en þeir Jamaal Williams, Helgi Jónas og Páll Axel áttu einnig góðan dag í Grindavíkurliðinu.
Á miðvikudagskvöld ræðst það svo hvort Keflavík eða ÍR mæti Snæfellingum í úrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn.
VF-Myndir/ [email protected]
Mynd 1: Adama Darboe fór á kostum í Grindavíkurliðinu
Mynd 2: Lokaskot Þorleifs vildi ekki í netið
Mynd 3: Snæfellingar fögnuðu vel í leikslok