Smith tekur við af Beybeyah í Keflavík
Keflvíkingar hafa gert breytingar á liði sínu þar sem samningi við Violu Beybeyah hefur verið sagt upp hjá kvennaliði félagsins og Kristi Smith ráðin í hennar stað. Þetta staðfesti Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkurliðsins í samtali við Karfan.is.
Keflvíkingar töpuðu fjórum fyrstu deildarleikjunum sínum á tímabilinu og sagði Jón að liðið þyrfti á meiru að halda en því sem Beybeyah hafði að gefa. Beybeyah gerði 21,4 stig og tók 9,6 fráköst að meðaltali í leik fyrir Keflavík þá fimm leiki sem hún lék með liðinu í deildinni.
Smith kemur frá University of Iowa skólanum sem leikur í Big 10 háskóladeildinni en þar var hún með 13,2 stig og 3,44 stoðsendingar að meðaltali í leik. Smith er 22 ára gömul og kemur beint til Keflavíkur úr námi. ,,Hún á að geta hjálpað okkur að ná betri árangri en við höfum verið að gera,“ sagði Jón Halldór við Karfan.is en Keflavík hefur aðeins unnið einn af fimm fyrstu leikjum sínum sem er versta byrjun félagsins í efstu deild kvenna.
Smith er þaulreyndur leikmaður en hún varð t.d. fyrsti kvennaleikmaðurinn í sögu Iowa Hawkeye til þess að ná 400 stigum og 100 stoðsendingum á þremur leiktíðum.
Þá er Birna Valgarðsdóttir ekki að leika af fullri getu og sagði Jón Halldór að vöðvi yfir rifbeini væri að angra hana en allt væri á réttri leið hjá þessari reyndu landsliðskonu.