Slokknaði á Keflvíkingum á lokasprettinum
Töpuðu gegn botnliðinu eftir að hafa leitt bróðurpart leiks
Keflvíkingar töpuðu á heimavelli sínum 1-2 gegn botnliði Eyjamanna nú fyrir stundu. Leikurinn var ekki mikið fyrir augað en Eyjamenn áttu sigurinn skilið þrátt fyrir að Keflvíkingar hafi átt fína kafla í leiknum.
Það voru Keflvíkingar sem náðu forystu í bragðdaufum fyrri hálfleik en Magnús Þorsteinsson skoraði einkar laglegt mark beint úr aukaspyrnu rétt áður en flautað var til hálfleiks. Hvorugu liðinu hafði tekist að skapa sér hættuleg marktækifæri en liðin virtust eiga í erfiðleikum með að halda boltanum á grasinu í rokinu sem var á Nettóvellinum. Eyjamenn voru þó öllu sprækari og reyndi nokkrum sinnum á Sindra í markinu sem stóð sig vel í dag.
Það var öllu meiri kraftur í Keflvíkingum í upphafi seinni hálfleiks og allt virtist stefna í það að þeir næðu að halda í forystuna, sérstaklega eftir að Kristján þjálfari gerði tvöfalda skiptingu sem virtist ganga vel upp. Leikurinn var í einhvers konar kyrrstöðu þar til um fimm mínútur voru til leiksloka en þá fengu Eyjamenn vítaspyrnu. Sindri Kristinn hinn 17 ára markvörður fór í úthlaup þegar sóknarmaður ÍBV var sloppinn inn fyrir, þeir rákust saman og gestirnir fengu víti sem Víðir Þorvarðarson setti örugglega framhjá Sindra í marki Keflvíkinga. Nú virtist allur vindur úr Keflvíkingum. Þeir sofnuðu aftur á verðinum þegar venjulegur leiktími var liðinn og Eyjamenn nýttu sér það. Gestirnir áttu hraða sókn sem endaði með skoti sem Sindri varði, Atli Fannar sóknarmaður ÍBV var fyrstur að átta sig og setti boltann í netið af stuttu færi. Fyrsti sigur Eyjamanna í höfn í sumar.
Magnús skorar beint úr aukaspyrnu, laglega gert.
Tvöföld skipting í upphafi seinni hálfleiks dugði ekki til.
Sigurður Ragnar þjálfari Eyjamanna fagnar sigri.
Víðir Þorvaðarson skorar framhjá Sindra.