Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sláturtíð í Seljaskóla: Keflavík 1 – 1 ÍR
Þriðjudagur 22. mars 2005 kl. 00:00

Sláturtíð í Seljaskóla: Keflavík 1 – 1 ÍR

Keflvíkingar fóru hamförum í annarri undanúrslitaviðureign sinni gegn ÍR-ingum í kvöld og sigruðu í leiknum 72-98 eða með 26 stiga mun. Staðan er því jöfn í einvíginu, 1-1, og mætast liðin næst í Sláturhúsinu í Keflavík þann 26. mars kl. 13:00.

Gestirnir frá Keflavík hófu leikinn með látum og komust í 0-7. Firnasterkur varnarleikur kom ÍR-ingum í opna skjöldu og voru Keflvíkingar duglegir við að skipta leikmönnum inn á og út af vellinum. Í stöðunni 4-16 hysjuðu heimamenn upp um sig og náðu að minnka muninn í 13-18. Keflvíkingar áttu þó lokaorðin í leikhlutanum og lauk honum í stöðunni 14-23 en alls notuðu Keflvíkingar átta leikmenn í 1. leikhluta.

Anthony Glover skoraði fyrstu stig annars leikhluta og ekkert virtist ganga upp hjá heimaliðinu sem var að tapa allt of mörgum boltum upp í hendurnar á Keflvíkingum. Snemma í öðrum leikhluta hófu Keflvíkingar að beita 2-2-1 svæðispressu á ÍR-inga og það gekk vel, skilaði nokkrum boltum ásamt því að skafa mikilvægar sekúndur af skotklukku heimamanna. Þegar um þrjár mínútur voru til loka annars leikhluta höfðu Keflvíkingar náð allverulegu forskoti, 20-45. Í þessum leikhluta setti Magnús Gunnarsson niður þrjár þriggja stiga körfur fyrir Keflavíkurliðið og var funheitur. Hann gerði alls 15 stig í leiknum, öll úr þriggja stiga skotum í átta skottilraunum. Liðin gengu svo til hálfleiks í stöðunni 28-52 eftir að Arnar Freyr Jónsson hafði brotist af miklu harðfylgi í gegnum ÍR-vörnina og skorað um leið og flautan gall.

ÍR-ingar komu grimmir til þriðja leikhluta og skoruðu fimm fyrstu stigin, það fékk þó ekki á gestina sem héldu sínum dampi með Nick Bradford í broddi fylkingar en hann gerði 29 stig í leiknum ásamt 11 fráköstum. Ekki má láta hlut Jóns N. Hafsteinssonar ónefndan en pilturinn spilaði framúrskarandi vörn á Theo Dixon, bandarískan leikmann ÍR-inga, og hélt honum í 16 stigum. Eiríkur Önundarson og Sverrir Þór Sverrisson fengu báðir sína fjórðu villu í leikhlutanum og komu lítið við sögu eftir það. Liðin skoruðu þó jafn mörg stig í leikhlutanum eða 23 hvort um sig og staðan því 51-75 þegar 4. leikhluti hófst.

Munurinn á liðunum var einfaldlega of mikill til þess að heimaliðið gæti rétt sinn hlut og því var sannkölluð sláturtíð í Seljaskóla í kvöld. Allir leikmenn beggja liða fengu að spreyta sig á vellinum og af 24 leikmönnum komust 21 á blað í stigaskorinu. Leiknum lauk svo eins og áður greinir 72-98 og náðu Keflvíkingar að hrista af sér tapleikinn frá fyrri viðureign liðanna.

„Við mættum ekki í síðasta leik og leikmenn héldu sennilega að við kæmust léttar í gegnum þann leik en raun bar vitni. Við vorum bara ákveðnir í því að mæta í kvöld og spila okkar leik og vissum að það myndi fleyta okkur ansi langt,“ sagði Falur Harðarson, aðstoðarþjálfari Keflvíkinga, eftir leikinn í kvöld. „Áherslubreytingarnar frá síðasta leik voru þær að mæta í leikinn og vera með, það er ekki nóg að mæta bara. Maður verður að gera þetta á fullum krafti og spila sem lið,“ sagði Falur. Aðspurður um þriðja leik liðanna og hvernig sá leikur færi, sagði Falur þetta: „Við vinnum hann, alveg pottþétt.“

Magnús Gunnarsson, einnig þekktur sem „Masknús“ Gunnarsson þessa dagana var heitur í kvöld: „Mér leið bara vel með grímuna í kvöld og var að hitta mun betur en í síðasta leik,“ sagði Magnús aðspurður um hvort hann væri ekki farinn að venjast grímunni góðu sem hann hefur borið á andliti sér í síðustu leikjum. „Við ákváðum bara að spila okkar leik í kvöld og það gerðum við, ÍR-ingarnir voru heppnir að vinna síðasta leik,“ sagði Magnús vígreifur að lokum.

Tölfræði leiksins

VF-myndir/ Bjarni

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024