Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Slakur varnarleikur varð Keflavík að falli
Þrjú ódýr mörk kostuðu Keflvíkinga sigurinn. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 29. apríl 2023 kl. 22:36

Slakur varnarleikur varð Keflavík að falli

Keflavík tók á móti ÍBV í fjórðu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag. Fyrir leikinn var Keflavík í sjöunda sæti en ÍBV í því næstneðsta. Eftir markalausan fyrri hálfleik komust heimamenn yfir með góðu marki Sami Kamel (67') en Eyjamenn efldust við að lenda undir og skoruðu þrjú mörk á næstu mínútum (71', 75' og 79'). Lokatölur 1:3 og Keflavík er nú í áttunda sæti með með fjögur stig.

Sami Kamel skorar eftir góðan undirbúning Jordan Smylei.

Frekar jafnt var á með liðunum í fyrri hálfleik, Eyjamenn voru aðeins meira með boltann en það voru heimamenn sem sköpuðu sér nokkur færi sem gestunum tókst á einhvern ævintýralegan hátt að bægja frá.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Seinni hálfleikur var öllu fjörlegri en sá fyrri og á 67. mínútu átti Jordan Smylei góðan sprett upp hægri kantinn, sendi fyrir mark Eyjamanna þar sem Sami Kamel var mjög yfirvegaður og kláraði vel framhjá markverði ÍBV. Fyrsta markið komið og heimamenn í forystu.

Ásgeir Páll Magnússon fór meiddur af velli í hálfleik og það átti eftir að veikja vörn Keflvíkinga í seinni hálfleik.

Vestmannaeyingar eru ekki þekktir fyrir að leggja árar í bát og þeir tvíefldust eftir markið. Vörn heimamanna hafði staðið af sér allar tilraunir þeirra í fyrri hálfleik en vegna meiðsla þurfti Ásgeir Páll Magnússon að fara út af í hálfleik. Við það riðlaðist vörn Keflavíkur, Nacho Heras tók stöðu vinstri bakvarðar í stað þess að stjórna í miðri vörninni og ráðleysi varnarinnar varð til þess að ÍBV náði að skora þrjú mörk á níu mínútna kafla. Öll voru mörkin mjög keimlík, sótt upp vinstri kantinn, boltanum komið á svæðið fyrir framan mark Keflavíkur sem var illa dekkað og Eyjamenn skoruðu þrjú ódýr mörk.

Keflavík fékk nokkur dauðafæri í fyrri hálfleik sem hefðu í flestum tilfellum átt að verða að marki. Hér er fyrirliðinn Nacho Heras að taka skotið af stuttu færi en gestunum tókst að bjarga á línu á einhvern óskiljanlegan hátt.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir á leiknum og ræddi við Sigurð Ragnar Eyjólfsson, þjálfara Keflvíkinga, sem var að vonum vonsvikinn með tapið.

Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan og myndasafn neðst á síðunni.

Keflavík - ÍBV (1:3) | Besta deild karla 29. apríl 2023