Slagurinn heldur áfram í kvöld
Keflavík og Njarðvík mætast í kvöld öðru sinni í undanúrslitum Iceland Express deildar karla í körfuknattleik. Keflavík sigraði í fyrsta leiknum á heimavelli en mæta nágrönnum sínum í Ljónagryfjunni í kvöld kl. 19:15.
„Þetta leggst vel í okkur. Við erum hvergi smeykir þó Keflavík hafi unnið fyrsta leikinn. Þetta verður löng sería,“ segir Magnús Gunnarsson, stórskytta Njarðvíkinga í samtali við VF. Fyrsti leikurinn var tvísýnn framan af en Njarðvíkingar gáfu eftir í lokin. Magnús segir ekki nóg að spila vel í 35 mínútur. Njarðvíkingar verði að spila vel í 40 mínútur og það ætli þeir að gera.
„Það verður skemmtlegt að mæta þeim í Ljónagryfjunni. Njarðvíkingar eru með vel þjálfað lið og þó svo okkur hafi gengið vel gegn þeim í vetur verðum við að halda einbeitingunni og berjast frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu,“ segir Hörður Axel Vilhjálmsson, einn lykilmanna Keflavíkur.
Það er ljóst að ef Keflavík kemst í 2-0 í kvöld verður brekkan nokkuð brött fyrir Njarðvík. Sigur á heimavelli er því afar mikilvægur og því verður væntanlega allt lagt í sölurnar.
---
VFmynd/Sölvi Logason - Frá fyrsta leik liðanna á dögunum.